131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:17]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá spyr maður sig hvort fulltrúar Framsóknarflokksins, alla vega þeirra sem eru andvígir Símanum, hafi átt aðgang að hinu ágæta þingi. Ég er ekki að agnúast út í kjörorðið Lýðræði, menning og náttúra og að unnið sé samkvæmt þeirri yfirskrift. Ég gagnrýni það þegar ósamræmi er á milli orða annars vegar og athafna hins vegar og vísa í tiltekin dæmi hvað það snertir.

Í skýrslunni sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan er talað um lýðræði og talað um mikilvægi þess að horfa á það í víðu samhengi að efla lýðræði á öllum sviðum en horfa ekki þröngt á hlutina. Hins vegar gerði hæstv. ráðherra það. Lýðræðið er í hennar huga það sem gerist á flokksþingi Framsóknarflokksins væntanlega og það sem gerist í þessum sal. Hún segir: Hvernig gátu menn gagnrýnt Kárahnjúkavirkjun? Þetta var samþykkt á Alþingi gegn atkvæðum aðeins 9 aðila. Tillaga frá Vinstri hreyfingunni — grænu framboði var líka felld um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla í anda þess sem skýrsla Norðurlandaráðs mælir fyrir um, að efla lýðræðið. Sú tillaga var felld hér einfaldlega vegna þess að á þinginu í þessu tiltekna máli var ekki sambærileg afstaða til Kárahnjúkavirkjunar og var í þjóðfélaginu almennt samkvæmt því sem allar skoðanakannanir báru vott um. Það er þetta sem ég er að tala um, misvægið og gjána sem er á milli þess sem menn segja og þess sem menn gera.