131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:19]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum því miður komin dálítið út fyrir efnið þar sem við ræðum um norrænt samstarf en hv. þingmaður gefur mér tilefni til að bregðast við vegna þess að hann kom fram með miklar fullyrðingar í minn garð og reynir að draga upp þá mynd að mikil gjá sé á milli orða og athafna sem ég mótmæli og hann hefur ekki fært rök fyrir því að svo sé.

Við búum við fulltrúalýðræði á Íslandi og fyrir því er rík hefð og fram kemur í skýrslunni sem við ræðum og skýrslu lýðræðisnefndarinnar að lýðræðishefð á Norðurlöndum er mjög rík. Það er rétt að hafa það í huga. Við erum minnt nokkuð oft á það hversu mikils virði lýðræðið er og er aldrei of oft minnt á það.

Það sem hv. þingmaður talar um í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur eru hlutir sem verið er að ræða um í nefnd sem skipuð er af hæstv. forsætisráðherra og fjallar um stjórnarskrá okkar. Ég ætla því svo sannarlega ekki að útiloka að það sé ekki skynsamleg leið til að nota í ákveðnum tilfellum í samfélagi okkar og er mjög opin fyrir því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum í hversu miklum mæli þjóðaratkvæðagreiðsla skuli notuð því hún á virkilega rétt á sér. En það sem fram kom í máli hv. þingmanns í sambandi við skoðanakannanir, að þær eigi að ráða afstöðu þingmanna, er nokkuð sem ég sætti mig ekki við og er ósammála vegna þess að við búum við fulltrúalýðræði og við göngum í gegnum kosningar eins og ég fór yfir áðan þar sem Framsóknarflokkurinn fékk stuðning þrátt fyrir afstöðu sína.