131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að víkja málinu að skýrslunni sem hér er til umræðu, frá hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda, Valgerði Sverrisdóttur. Ég vil þakka fyrir þá ágætu skýrslu sem hér liggur fyrir. Hún er mjög ítarleg og fróðleg.

Mig langar til að færa umræðuna meira að því efni sem átti að vera hér til umræðu. Mér finnst umræðan hafa farið svolítið út um víðan völl, sem er þó ekki óeðlilegt miðað við innleggið sem kom hér í framhaldi af skýrslu hæstv. ráðherra.

Ég hef svolitlar áhyggjur af því að áhugi á norrænu samstarfi skuli ekki vera meiri en raun ber vitni. Það hafa verið frekar fáir í þingsal undir umræðunni og ég sakna ýmissa áhugamanna um norrænt samstarf. Ég veit að nokkrir þeirra eru erlendis og fjarri góðu gamni.

Ég hef starfað í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs undanfarið ár. Ég ætla að taka til máls um þau atriði á eftir þegar við ræðum starf Íslandsdeildarinnar. Mig langar hins vegar að ræða nokkur málefni hér sem snúa að því og vildi í leiðinni spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur atriði í skýrslunni.

Þar sem fjallað er um orkumál í skýrslunni og af því hæstv. samstarfsráðherra er líka iðnaðarráðherra, orkumálaráðherra, langar mig aðeins til að spyrja út í atriði í skýrslunni um þau efni þar sem vitnað er í að það hafi verið gagnlegt fyrir okkur að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins á Norðurlöndunum og læra af reynslu þeirra í þeim efnum. Áður var búið að fjalla um þennan sameiginlega markað og þær breytingar á raforkulögum sem við höfum gert hér eins og Norðurlöndin, en á Norðurlöndunum og í Evrópu er orðinn einn markaður fyrir raforku.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra úr því að hún vitnar hér í skýrslu sinni um það hve mikilvægt hafi verið að fylgjast með þróuninni á Norðurlöndunum og læra af reynslu þeirra, hvernig standi á því að hæstv. ráðherra gat ekki upplýst okkur hér á landi um þær breytingar eða þau áhrif af lagabreytingum í raforkumálum sem orðið hafa á Norðurlöndunum þar sem í ljós kom að raforkuverð hækkaði alls staðar.

Mín nefnd, náttúruauðlindanefndin, var með orkumálin í forgrunni á þessu ári og við héldum mjög athyglisverða ráðstefnu um orkumál, og sérstaklega raforkumál í Noregi, í desember. Þar kom fram hjá öllum sem þar töluðu að í kjölfar þessara breytinga í raforkumálum hefði fylgt hækkun á raforkuverði til neytenda þó svo að virk samkeppni væri í raforkumálum. Þess vegna væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra hvers vegna hún upplýsti okkur ekki um þessar afleiðingar úr því að það var svona mikið samráð og mikið fylgst með reynslu Norðurlandanna í orkumálum.

Undir sama málaflokki er talað um, það er reyndar komið undir umhverfismál en undir sama málaflokki og mín nefnd heyrir undir í Norðurlandaráði, en þar segir: „Í formennskuáætlun Íslands var lögð áhersla á mikilvægi lýðræðislegrar umræðu um náttúruvernd“. Mig langar í framhaldi af því að spyrja hæstv. samstarfsráðherra hvernig standi á því að ekki hafi farið fram lýðræðisleg umræða hér á landi um þau áform sem uppi eru um að gera hér tilraunir með erfðabreytt matvæli. Ég sat einmitt fund um það í fyrradag og það kom mér á óvart að hér ætti að fara út í tilraunir með erfðabreytt matvæli. Það kom fram hjá vísindamanni sem þar talaði að það gæti haft þau áhrif að við mundum ekki geta verið með t.d. lífrænt ræktað grænmeti í kjölfarið ef þessi erfðabreyttu matvæli smituðu eitthvað út frá sér. Við mundum ekki hafa hagnað af niðurstöðum þessara rannsókna sjálf því það mundi aldrei vera hægt að framleiða þetta erfðabreytta bygg hér á landi eins og við erum að fara út í breytingar á. Ég hefði gjarnan viljað fá viðbrögð ráðherra við þessu.

Síðan langar mig að gera aðeins að umtalsefni tvær skýrslur sem styrktar voru, eða a.m.k. eina af þeim skýrslum sem styrktar voru af norrænu umhverfisráðherrunum, um hver sé sparnaður samfélagsins vegna nýrra tillagna frá ESB um meðhöndlun efnasambanda (REACH) — þetta er svona eiturefni — út frá umhverfinu. Í skýrslunni kemur fram að þó að tillaga ESB um meðhöndlun á þessum efnasamböndum muni hafa í för með sér kostnað fyrir efnaiðnaðinn leiði hún til mikils samfélagslegs sparnaðar og þá sérstaklega vegna heilnæmara umhverfis. Norðurlandaþjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á samþætta stjórnun og meðhöndlun efna á alþjóðavettvangi.

Á fundum Norðurlandaráðs í janúar var einmitt málþing um þetta efni, þennan REACH-samning. Þar var hvatt mjög eindregið til þess að Norðurlandaþjóðirnar beittu sér fyrir því að fá sem flest af þessum eiturefnum inn á þennan lista sem verið er að útbúa hjá ESB. Þar kom einnig fram að fyrirtækin, efnafyrirtækin, eru með mjög mikinn þrýsting á að fá færri efni inn á þann lista. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

Hefur Ísland á einhvern hátt beitt sér í þessum efnum? Erum við með einhverjar ákveðnar kröfur við undirbúning á þeim ESB-reglum sem þarna eru í mótun og við munum þurfa að innleiða hér?

Ég vil gjarnan fá upplýsingar um hver sé þáttur okkar í undirbúningsstarfinu á þessum REACH-reglum sem búist er við að verði að lögum hjá ESB á næstu árum.

Aðeins aftar í skýrslunni, á bls. 53, er fjallað um matvælamál. Þar er talað um að embættismannanefndin um matvælamál og fastanefndir á hennar vegum sem fjalla um eiturefnafræði matvæla og áhættugreiningu, matvælaörveirufræði og áhættugreiningu, matvælaeftirlit, matvælalöggjöf og manneldi hafi sett heilsu neytenda í öndvegi með því að leggja áherslu á að tryggja neytendum örugg matvæli og verja neytendur fyrir villandi upplýsingum um matvæli, fræða neytendur um heilnæmi matvara o.s.frv. Það kemur fram að Ísland hefur tekið þátt í allri þessari vinnu.

Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra og samstarfsráðherra hvort það sé eitthvað í farvatninu um að bæta upplýsingar á matvælum hér á landi í framhaldi af þessu og hvort menn séu tilbúnir að merkja matvæli sérstaklega eftir því hversu heilsusamleg þau eru, eins og lögð er áhersla á í þessari vinnu. Hvort menn séu kannski með eitthvað á döfinni eins og Bretar og ýmsar matvælakeðjur í Bretlandi þar sem þær merkja sérstaklega óhollustu og síðan þá vöru sem er holl. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, en gerð er ágæt úttekt í þessu efni í skýrslunni. Reyndar er fjallað um þetta víðar, m.a. í kaflanum um Norrænu nýsköpunarmiðstöðina. Þar er einnig komið inn á þennan þátt, um öryggi matvæla, og bent á að það sé eitt langstærsta nýsköpunarverkefni sem unnið hefur verið á vettvangi norræns samstarfs og að baki því liggi margra ára norrænt samstarf um matvælarannsóknir sem m.a. Norræni iðnaðarsjóðurinn hefur stutt.

Í ljósi hinnar miklu áherslu á öryggi matvæla vil ég gjarnan fá svör við þessum spurningum hjá hæstv. ráðherra.

Það er virkilega ánægjuefni að sjá hve gróskumikið starf er unnið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í mörgum málaflokkum en ég ákvað að einskorða mig við þau mál sem snúa að því nefndastarfi sem ég tek þátt í á vegum Norðurlandaráðs. Vegna þess að ég sit í hv. iðnaðarnefnd hér í þinginu væri fróðlegt að fá þessar upplýsingar og líka vegna þess að ég tel fulla ástæðu til þess að við förum út í að merkja matvæli sérstaklega, í ljósi þess að við höfum verið með ákveðin markmið í heilbrigðisáætlun sem snúa einmitt að þessum þáttum og merking matvæla ætti að gera fólki auðveldara að lifa heilsusamlegra lífi og minnka þá útgjöld heilbrigðiskerfisins á móti.

Frú forseti. Ég lýk máli mínu hér en vonast eftir því að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum mínum sem snúa að skýrslunni.