131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[13:00]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég held því fram að norrænt samstarf sé okkur ákaflega mikilvægt ekki síður nú en áður, en þó svo við leggjum áherslu á norrænt samstarf er það ekki svo að við horfum ekki til alls heimsins. Það er ekki hægt að bera norræna samstarfið saman við annað samstarf sem við tökum þátt í á alþjóðavísu vegna þess að norrænu þjóðirnar eru svo nánar og samstarf þeirra er að sumu leyti ekki eins og samstarf þjóða að mínu mati heldur eitthvað miklu nánara.

Við ræðum formið og eðlilegt að það sé rætt. Undir forustu Dana er verið að velta fyrir sér hvort hægt sé að gera starfið skilvirkara og jafnvel fækka ráðherraráðum og ég held að það sé bara af hinu góða.

Ég ítreka það sem fram kom hjá mér áðan að forustuár Íslands gekk vel og ég held því fram að það hafi verið okkur til sóma. Við störfum þar undir fyrirsögninni „Auðlindir Norðurlanda – lýðræði, menning, náttúra“. Lýðræðishefðin er rík á Norðurlöndum og hún er eitt af því sem sameinar okkur.

Síðasti hv. ræðumaður spurði hvort ég væri sammála um að meginverkefnið væri að Ísland yrði eitt kjördæmi og að þjóðaratkvæðagreiðslu yrði komið í stjórnarskrá Íslands sem fyrsta skrefi að beinu lýðræði. Ég er ekki sammála því að Ísland verði eitt kjördæmi og ég tel að náðst hafi niðurstaða á milli allra stjórnmálaflokka þegar stjórnarskránni var breytt. Mér fannst það mikilvægt og ég tel að við munum a.m.k. enn um sinn búa við það fyrirkomulag. Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur eru þær til umfjöllunar í sérstakri nefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði.

Ég vil segja um fyrirspurnirnar sem fram komu frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur að þær eru náttúrlega mjög faglegar á þann hátt að þær eru á verkefnasviði ákveðinna fagráðherra og væri nauðsynlegt fyrir hana að bera fram fyrirspurnir til þeirra beint þar sem ég fer ekki með þau mál sem hún talaði um nema að hluta til. Ég get þó sagt varðandi þau áform sem hún telur að uppi séu um tilraunir í sambandi við erfðabreytt matvæli að það hefur alltaf verið lögð áhersla á það af hálfu Íslendinga að ef slíkt yrði gert mundi það ekki ná að blandast í íslenska náttúru. Segja má að stefna Evrópusambandsins sé nokkuð íhaldssöm í þessum efnum en hins vegar er stefna Bandaríkjamanna frjálslyndari. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða, það er alveg augljóst, og ég held að hv. þingmaður ætti að tala um þetta við viðkomandi ráðherra.

Um raforkumálin er það að segja að það er ekki rétt að verð hafi hækkað á Norðurlöndum út af kerfisbreytingunni. Verð hækkaði í kjölfar mikilla þurrka og mikils kulda fyrst og fremst og sett var upp nefnd til að fara yfir þá hluti og hvort ástæða væri til að breyta fyrirkomulaginu í framhaldi af þeirri uppákomu. En niðurstaðan var að gera það ekki, m.a. vegna þess að menn sáu að ekki var hægt að rekja þau vandamál sem vissulega voru til staðar til kerfisbreytingarinnar.

Ég held að það sé ekki mikið fleira sem hér kom fram sem ástæða er til að bregðast við. Spurt var um hvort vinnuhópur, sem var ein af tillögum lýðræðisnefndarinnar, yrði skipaður. Við komum saman sl. mánudag, samstarfsráðherrar, og ræddum skýrsluna og hvernig farið skyldi með hana til framtíðar og ýmsar hugmyndir eru uppi um hvernig það geti verið gert, þó að ekki sé búið að fastákveða það eða fastmóta það. Eitt af því sem kom t.d. fram er hvort norrænu félögin gætu fengið ákveðið hlutverk í framhaldi af skýrslugjöfinni til að kynna hana frekar o.s.frv. Ég fór yfir það í máli mínu áðan hvað við Íslendingar höfum nú þegar tekið ákvörðun um að gera en ekkert útilokar að það verði fleira og augljóst að það verður fleira þegar stjórnarskrárnefndin hefur farið yfir málið og metið hvernig best sé að halda á málum til framtíðar.