131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[13:05]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir nokkuð skýrt svar og vil inna hana eftir frekari útskýringum á því hvaða rök standa á bak við það að hæstv. ráðherra telur núverandi kjördæmafyrirkomulag heppilegt og kalla eftir lausn sem við gætum búið við til frambúðar þar sem ég tel að það sé afleit skipan mála til frambúðar. Þó að það hafi kannski verið málamiðlun sem var hægt að una við á þeim tíma sem hún var gerð held ég að mjög mikilvægt sé að stíga skrefið til fulls nú þegar og gera landið að einu kjördæmi og jafna atkvæðisréttinn til fulls, enda hafa hin stóru kjördæmi einungis verið til að viðhalda misvægi atkvæða, ég hef ekki heyrt nein sérstök rök fyrir því.

Ég vil inna ráðherrann eftir því hvort ekki væri nær að jafna atkvæðaréttinn til fulls og fara aðrar leiðir til að rétta hlut hinna fámennu svæða sem er hugsunin á bak við þetta. Að sjálfsögðu þarf að rétta hlut þeirra og varðveita. En af hverju, að mati hæstv. ráðherra, þarf að viðhalda misvægi atkvæða og þeirri skerðingu á mannréttindum sem í því felast til að halda úti einhverri byggðastefnu sem einu sinni var?