131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[13:07]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fróðlegt væri að vita hvort samstaða sé um það í þingmannahópi Samfylkingarinnar að byggðastefnan sé bara eitthvað sem einu sinni var. Það væri forvitnilegt að vita hvort hv. þm. Kristján L. Möller væri t.d. þeirrar skoðunar að hún heyrði fortíðinni til og að ekki þyrfti á slíku að halda.

Það sem ég vil segja í sambandi við þá kjördæmaskipan sem nú ríkir er að lögð var gríðarlega mikil vinna í að breyta fyrirkomulaginu og minnka misvægið þannig að það verði aldrei meira en 1:2, en það var alveg upp í 1:5 fyrir breytinguna. Þetta var því gríðarlega mikilvægt skref og mikilvægt að flokkarnir stóðu nokkurn veginn saman að breytingunni — að vísu voru Vinstri grænir ekki með af einhverjum ástæðum. En Samfylkingin kom að málinu af fullum heilindum og við náðum niðurstöðu. En blekið var varla orðið þurrt á þeim skjölum þegar Samfylkingin var farin að tala um nýja stefnu. Mér finnst þetta ekki vera skemmtileg vinnubrögð af hálfu Samfylkingarinnar, að þegar búið er að ná málamiðlun eigi hún bara að duga í einhverja daga og þá sé farið að tala um nýja hluti, sjálfsagt fyrst og fremst út af einhverjum atkvæðaveiðum.

Mér finnst fyrirkomulagið sem nú ríkir vera allgott. Vissulega er þetta mikil vinna fyrir landsbyggðarþingmenn sem hafa mjög stór kjördæmi en engu að síður tel ég að vel hafi tekist til hvað breytinguna varðar.