131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:00]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að koma í örstutt andsvar við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þótt ekki væri fyrir annað en að hér hlustuðum við á fyrstu efnislegu ræðu stjórnarliða um þetta mál. Hv. þingmaður fór vítt yfir málið og velti upp ýmsum hliðum þess sem er býsna nauðsynlegt. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum reynt að nálgast málin þannig en höfum yfirleitt fengið þær einkunnir frá stjórnarliðum að ræður okkar væru í besta falli ómálefnalegar. Við höfum jafnvel fengið að heyra að ræður af þessum toga væru málþóf.

Hv. þingmaður tók eðlilega dágóðan tíma í ræðu sína enda þurfti hann að fara vítt og breitt yfir málið. Hann skoðaði það frá ýmsum hliðum og kom inn á mörg athyglisverð atriði. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður fór vel yfir málið, töluvert ólíkt öðrum stjórnarliðum sem við höfum hlustað á við þessa umræðu, enda komst hv. þingmaður að annarri niðurstöðu en aðrir stjórnarliðar í málinu. Ég tel að það sé vegna þess að hv. þingmaður hefur lagt sig fram um að kynna sér málið og velta því vel fyrir sér en ekki tekið við fyrir fram gefinni niðurstöðu.

Það var líka athyglisvert sem hv. þingmaður talaði um, sem ég tek sterklega undir, þ.e. að ræða þurfi þessi mál í heild sinni, að hér sé í raun tekið skref í átt til skólagjalda. Ég orðaði það þannig í ræðu minni við 2. umr. að farið væri bakdyramegin að því að taka upp skólagjöld. Mér heyrðist hv. þingmaður tala á svipuðum nótum en bara til þess að taka af allan vafa þá held ég að það sé rétt að spyrja hv. þingmann að því hvort ég hafi ekki skilið hann rétt, að hann telji það ranga stefnu að taka upp skólagjöld á þennan hátt, þ.e. að ef menn vilji á annað borð taka upp skólagjöld þá eigi að fara í heildstæða umræðu um skólagjöld, tengja hana m.a. við málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna (Forseti hringir.) en með þessu sé í raun reynt að taka upp skólagjöld bakdyramegin.