131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:31]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum munum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps. Við höfum sett fyrirvara við vinnubrögðin varðandi það og ég hef farið yfir þá áður. Mér finnst menn gera heldur mikið úr því að hér sé um mikinn mun á einkareknum og ríkisreknum skólum að ræða. Þessir skólar, hvort sem það er Háskólinn í Reykjavík eða Háskóli Íslands, eru meira og minna reknir fyrir opinbert fé. Það er ekki verið að fara í einn eða neinn einkarekstur þannig lagað nema stjórnunin breytist eitthvað.

Það er einmitt það sem við í Frjálslynda flokknum höfum sett spurningarmerki við: Hvað breytist við stjórnunina? Því hefur ekki verið svarað hér í umræðum hvernig skólayfirvöld, hlutafélagið Hástoð, muni tryggja akademískt frelsi. Það skiptir verulegu fyrir þá sem starfa þar að kenningar þeirra verði ekki dregnar í efa þegar þær eru settar fram, að menn gangi ekki bara erinda hluthafa í einkahlutafélaginu. Það skiptir verulegu máli að þetta sé tryggt. Það má gera með ýmsum hætti, svo sem að setja það í ráðningarsamninga viðkomandi sérfræðinga eða prófessora við stofnanirnar.

Það er annað sem við höfum sett spurningarmerki við, mismununin. Það er verið að opna á það að svokallaðir einkaskólar, eða einkareknir skólar sem eru í rauninni ekki einkareknir skólar því þetta er allt rekið fyrir meira og minna opinbert fé, hafi ákveðið forskot á svokallaða ríkisskóla. Það verður náttúrlega að skoða það og ræða með opnum hug hvernig eigi að taka á því máli.

Í þriðja lagi höfum við spurt hvort þetta sé endilega rétt sameining, hvort ekki hefði frekar átt að sameina í meira mæli deildir úr Tækniháskólanum inn í Háskóla Íslands og efla þannig raunvísindanám í landinu. Ég tel að þeirri spurningu sé enn að nokkru leyti ósvarað. Að vísu hafa menn talað um að liður í því væri að koma á einhverri samkeppni milli skólanna en það verður að hafa skýrt í huga að það er enginn hagur fyrir land og þjóð að vera með tvær stofnanir þar sem verkfræði er kennd sem kannski krefst mikils tækjabúnaðar ef hvorug stofnananna er fullburða í að sinna þeim verkefnum. Ísland er í samkeppni við útlönd, við megum ekki gleyma því.

Nú er komið að lokum umræðu um þetta frumvarp. Það er ljóst að sameiningin verður að veruleika. Þá finnst mér vel við hæfi að óska þessum skóla alls hins besta og ég vona að hann nýtist landi og þjóð til góðra verka. (Gripið fram í: Bara jákvæður.)