131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:34]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem lítið nýtt bæst við í 3. umr. um þetta ágæta mál, frumvarp um afnám laga um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum. Það eru þessar eilífu spurningar sem er margbúið að svara, þ.e. í fyrsta lagi hvers vegna menn séu á móti forminu og vilji endilega ehf.-formið í staðinn fyrir sjálfseignarstofnunarformið. Það er margbúið að svara þessu. Við héldum fund í menntamálanefnd í gær þar sem fulltrúar hins nýja skóla svöruðu enn og aftur spurningunum. Það er búið að gera glögga grein fyrir þessu máli, bæði skriflega og munnlega. Síðan er haldið áfram að höggva í sama knérunn og tala alltaf um sama málið eins og menn heyri ekki eða viti ekki neitt um það sem sagt hefur verið.

Í öðru lagi hefur verið talað um akademískt frelsi. Það var farið mjög vel yfir það á fundi menntamálanefndar í gær og skýrt hvernig þetta væri í Háskólanum í Reykjavík og hvernig það yrði í þessum nýja skóla, þ.e. það væri ákveðið í deildarráðunum þar sem kennararnir og nemendurnir eru. Það er hið akademíska frelsi. Það er alveg með ólíkindum að þetta komi alltaf aftur og aftur og samt er margbúið að svara þessu.

Talað hefur verið um að ekki séu nægilega góð skilyrði til skólastarfs í þessum nýja skóla. Þetta er alveg ótrúlegt.

Síðan er það náttúrlega varðandi skólagjöldin, menn eru á móti þeim. Spurning er um það hvort þessir einkaskólar, eins og Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn á Bifröst, fái eitthvað umfram ríkisskólana. Þeir sitja við sama borð. Skólagjöld eða ekki skólagjöld, ég ætla ekki að fara að taka þá umræðu hér. Það er alveg ljóst að lán fæst fyrir skólagjöldum þar sem ríkið styrkir að hálfu eins og þekkt er og ég ætla ekki að fara að lengja umræðuna með því.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að ráðstafa bæri fjármunum á markvissan hátt. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera með þessu, með einkaskólanum. Það er ekki út af engu. Það er áhugi meðal þessara aðila til að reka hér virkar menntastofnanir til að fólk geti menntað sig kannski í þeim greinum sem þessir aðilar standa að og vantar fólk í. Það er verið að gera þetta af hugsjónastarfsemi líka og í ákveðinni samkeppni við ríkið sem er af hinu góða.

Að lokum, virðulegi forseti, get ég ekki orða bundist út af skoðunum Frjálslynda flokksins í þessum málum. Á nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Sigurjón Þórðarson sat fundi (Gripið fram í.) nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.“ (Gripið fram í.)

Síðan kemur úr ræðu hans í 2. umr., þá er búið að breyta um kúrs og þá er þessi flokkur sem kennir sig við frjálslyndi kominn eitthvað annað. Hann er bara kominn á sama stað og Vinstri grænir. Með leyfi forseta ætla ég að lesa aðeins upp úr ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar sem er áheyrnarfulltrúi í menntamálanefnd. Þar segir:

„Engu að síður er vert að leggja þunga áherslu á það að Frjálslyndi flokkurinn vildi skoða sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík með opnum hug og leggja því lið að sú sameining yrði gifturík fyrir framtíð tæknináms á Íslandi.“

Hann leggur áherslu á það. Nokkru seinna í ræðunni segir síðan hv. þingmaður:

„Það á að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík og ég tel vert að skoða það.“

Virðulegur þingmaðurinn er sem sagt alveg sammála þessu. Síðan kemur hér enn seinna í ræðunni, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi hefði mátt kanna með opnari hug sameiningu í frekari mæli við nám í Háskóla Íslands, en þar er fyrir verkfræði- og raunvísindadeild og veigamikil rök“ — eins og var talað alltaf um í þessari ræðu, þessi veigamiklu rök — „hníga í þá átt að þar næðust fram samlegðaráhrif sem gætu án efa eflt nám bæði í tæknifræði og verkfræði.“

Síðan vitnar hv. þingmaður í þetta sama, í sjálfseignarstofnun, og að einkahlutafélög séu af hinu vonda og síðan í þetta akademíska frelsi sem er margumtalað.

Í annarri ræðu sinni hér talar virðulegur þingmaður, með leyfi forseta, um þrjá möguleika:

„Sá fyrsti er að við hefðum lagt meiri áherslu á að kanna möguleika á frekari sameiningu við Háskóla Íslands. Ég tel ef sýnt hefði verið fram á það með frekari rökum þá hefði málið verið betur unnið.”

Síðan kemur akademíska frelsið. Það er Frjálslyndi flokkurinn, hv. þingmenn og virðulegur forseti, sem talar svona. Í einni og sömu ræðunni eru menn búnir að skipta um kúrs, 180°. Þetta er bara svona til ábendingar um hvernig málflutningur þessa ágæta stjórnmálaflokks er.

Ég tel að þetta hafi verið hið besta mál og auðvitað óskum við þessum nýja skóla velfarnaðar. Það er tímabært að afgreiða þetta mál og gefa þeim tækifæri til að kynna sig og halda áfram vinnu sinni.