131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:41]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntamálanefndar, talar um einkaskóla í samkeppni við ríkið, segir að slíkt sé af hinu góða. Það sem var þungamiðjan í máli mínu var ríkið í samkeppni við ríkið, þ.e. við erum að tala um tvær stofnanir sem ríkið, skattborgarinn, fjármagnar. Deilan snýst um það, a.m.k. snýst þessi hluti hennar um það hvort ríkið, fjárveitingavaldið, ráðstafi fjármunum sínum á skynsamlegan hátt. Þá er ég að vitna í ummæli prófessora í verkfræði og margra aðila sem hafa tjáð sig um málið og þekkja til. Í stað þess að hokra á tveimur stöðum sem gæti orðið niðurstaðan af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri nær að efla nám við verkfræðideild Háskóla Íslands þannig að við sem þjóð stæðum okkur í samkeppni við útlandið.

Sú er spurningin.

Þess vegna spyr ég þennan ágæta þingmann, hv. þm. Gunnar Birgisson sem hefur orð á sér fyrir að hafa góður bisnessmaður og þess vegna á móti einkaframkvæmd svo dæmi sé tekið, hvort hann sé ekki þarna kominn út á svolítið hálar brautar. Er hann ekki að blása út af borðinu, svo að maður noti hugtök sem hv. þingmaður kannast svolítið við, röksemdir manna sem vel þekkja til?