131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er ákaflega erfitt að rökræða við mann sem veit ekkert hvað stendur í nefndaráliti sínu eða hefur takmarkaða hugmynd um það. Hann virðist t.d. ekki vita hverjir samþykktu þetta nefndarálit. Ég var að leita að nafninu mínu í því og ég finn það ekki. Hv. þm. Gunnar I. Birgisson vitnar þó ítrekað í það og ég hef bara ekki séð það.

Það er alveg ótrúlegt að maðurinn skuli leyfa sér að vera með svona þvætting. Það lýsir því hvernig vinnubrögðin hafa jafnan verið, og málflutningur hv. þingmanns. Svo leyfir hann sér að snúa út úr ræðu minni. Mér var skapi næst að lesa hana upp í heilu lagi á ný en ætla að láta hjá líða að gera það. Það getur þó vel verið að þess þurfi til að koma honum í skilning um hvað stendur raunverulega í ræðunni.

Það sem er alvarlegt er að þegar maður flytur hér ræður er hv. formaður menntamálanefndar ekkert á staðnum. Hann er bara einhvers staðar úti í bæ að malbika eða horfa á box. Ég veit ekki hvað hann var að gera. Náttúrlega hefði verið eðlilegast að formaður nefndarinnar væri hérna, tæki efnislega umræðu um málið og reyndi að svara þeim spurningum sem væru bornar upp.