131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:53]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Kemur nú enn og aftur þessi spurning um eignaformið, þ.e. hvort það eigi að vera sjálfseignarstofnun eða hlutafélag. Það er búið að fara margoft yfir þetta og við erum bæði búin að fá munnleg svör og skrifleg frá aðilum þessa nýja, óstofnaða skóla við því hvers vegna þau völdu ehf.-formið í stað sjálfseignarformsins. Þau studdu það með gildum rökum að mínu mati og meiri hluta nefndarinnar. Þessi hlutafélög eru svokölluð, ef það má sletta, virðulegi forseti, „non-profit“ félög þar sem hagnaðurinn er ekki greiddur út úr félaginu. Ef hann verður til verður hann til uppbyggingar á áframhaldandi starfi félagsins, þ.e. það fólk sem stofnar þetta félag í kringum rekstur á menntastofnun við háskóla gerir það af góðum hug, ekki í ágóðaskyni eins og stjórnarandstæðingar hafa hér hvað eftir annað gefið í skyn.

Mér þykja það kaldar kveðjur til þeirra sem eru að stofna hér skóla, einkaskóla. Orðið má bara ekki heyrast, þá er ýjað að því að menn séu að græða á nemendum og annað slíkt. Þetta er alveg skelfilegt, virðulegi forseti.

Ég er ekki að segja að sjálfseignarstofnunarformið sé eitthvað slæmt. Það var val þeirra aðila sem standa að þessum skóla að hafa hlutafélagaform. Þeir töldu það betra eftir að hafa íhugað málið. Slík dæmi eru til annars staðar. Önnur menntastofnun hér á landi er rekin með svipuðu formi og hefur gefist vel.