131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:07]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Örstutt varðandi tengingu rannsókna við háskóla og atvinnulífið. Ég er að sjálfsögðu mjög fylgjandi því að þau tengsl séu sem allra best. Ég hef hins vegar talað fyrir því að langtímarannsóknir í akademísku umhverfi gagnist efnahagslífinu og fyrirtækjum mjög vel og hafi gert það þegar til langs tíma er litið. Sama er um breytingar á fyrirkomulagi við ráðstöfun opinbers rannsóknarfjár. Hæstv. ráðherra sagði að varnaðarorð sem hér voru höfð uppi hafi ekki reynst rétt og spurði hvað hefði komið á daginn. Það hefur ekkert komið á daginn. Við erum að tala um breytingar sem verður að skoða í langtímasamhengi. Við getum ekki metið útkomuna nema á miklu lengri tíma.

Varðandi þungamiðjuna í málflutningi mínum þá er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að auk andstöðu okkar við skólagjöld og að beina skattpeningum borgaranna til fyrirtækja á markaði, hlutafélaga á markaði, við höfum miklar efasemdir um það, þá teljum við líka að menn séu ekki að ráðstafa skattpeningum á skynsamlegan hátt. Menn hafa bent á að við séum í rauninni að búa til fyrirkomulag þar sem hokrað er á mörgum stöðum í stað þess að efla nám á einum eða fáum stöðum þannig að við stöndum betur að vígi í samkeppni við útlönd. Mér finnst hæstv. ráðherra og hv. formaður menntamálanefndar ekki hafa fært sannfærandi rök fyrir þessu. Mér finnst ekki hafa komið sannfærandi rök frá þeim um að við séum að ráðstafa peningum á skynsamlegan hátt.