131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:09]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að reyna að draga fram var að sú hræðsla sem hv. þingmaður hafði á sínum tíma í garð atvinnulífsins við að tengja það í ríkari mæli við rannsóknir og háskólastarfsemi átti ekki við rök að styðjast, því það hefur komið á daginn að það er ekki síður verið að styðja við grunnrannsóknir en hagnýtar rannsóknir miðað við þær úthlutanir sem við höfum nú þegar séð og sjáum fram á á næstu missirum.

Hv. þingmaður talaði líka um það í ræðu sinni áðan að ríkið væri slæmur bisnessaðili þegar kæmi að háskólamálum. Ég er því auðvitað algerlega ósammála því hvað erum við að upplifa í dag? Það hafa aldrei verið fleiri háskólanemar í háskólanámi á Íslandi, aldrei fleiri háskólar, aldrei fleiri námstækifæri fyrir fólkið okkar og aldrei höfum við staðið betur í samkeppninni gagnvart alþjóðasamfélaginu en nú. Það sýna allar tölur hvar sem borið er niður, hvort sem vitnað er í tölur OECD eða annarra samtaka. Ég get því ekki tekið undir að það sé slæmt að auka fjármagn til háskóla eins og við höfum verið að gera í ríkum mæli. Í rauninni höfum við hlutfallslega aukið fjármagn til háskólamála hraðar en nokkrar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við.