131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:16]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reiðubúin að svara þessu í fimmta eða sjötta skipti en ég ræddi þetta líka bæði við 1. og 2. umr. í þessu máli. Það er alveg ljóst að menntamálaráðuneytið mun ekki frekar en fyrri daginn standa í vegi fyrir því að háskólar hvort sem það eru ríkisháskólar eða aðrir háskólar taki upp nám sem þeir háskólar kjósa að forgangsraða ef þeir forgangsraða innan þess ramma sem þeir síðan búa við samkvæmt fjárlögum. Auðvitað höfum við fjárlög sem við förum eftir og síðan eru ákveðnir kennslusamningar sem við vinnum eftir. Ef háskólarnir kjósa að forgangsraða málum þannig að þeir setja tækninám á oddinn þá munum við ekki standa í vegi fyrir því svo lengi sem þeir gera það innan síns ramma.