131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:17]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu sem ég bar fram í umræðunni um hvaða áform væru uppi af hálfu hæstv. menntamálaráðherra til þess að jafna þann mun sem er á fjárveitingum fyrir kennslu í skólum sem ekki eru ríkisháskólar borið saman við þá, munurinn nemur skólagjöldunum sem ríkið er svo að fjármagna gegnum lánasjóðinn. Þessir skólar eiga að keppa innbyrðis um nemendur í sama eða skyldu námi og það sér hver maður að ríkisháskólarnir standa illa að vígi í slíkri samkeppni.

Mig minnir að kostnaður ríkisins við einn háskólanema sé um 600 þús. kr. á ári. Þegar sú fjárhæð er hækkuð um 200 þús. eða jafnvel 400 þús. kr. á ári til viðbótar sér hver maður hvað munurinn er mikill á því fjármagni sem háskólinn sem ekki er ríkisháskóli hefur undir höndum umfram hinn.

Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra hvort áform væru uppi um að breyta fleiri skólum sem eru í dag í eigu ríkisins í skóla sem ekki verða í eigu ríkisins, annaðhvort með sölu eða með því að færa frá þeim nám sem þar er yfir til annars skóla sem ekki er ríkisháskóli og gera þannig skólum kleift að taka upp skólagjöld. Ég spyr hvort frekari áform eru um að ganga áfram á þeirri braut sem þetta frumvarp er á.

Að lokum, virðulegi forseti, spurðist ég fyrir um umfang þess náms sem á að vera í Reykjanesbæ en ekki komu svör við því. Við 1. umr. málsins nefndi hæstv. menntamálaráðherra að þetta væri kennsla í íþróttafræðum en við 2. umr. heitir þetta menntun í lýðheilsu, sem ég hygg að sé ekki alveg það sama og hið fyrra. Mig langar að fá nánari skýringar á því hver áformin eru og að hve miklu leyti það skarast við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni.