131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:20]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi spurningar hv. þingmanns er hægt að nálgast þessa hluti frá mjög mismunandi sjónarhornum, hversu há framlög háskólarnir fá fyrir hvern nemanda. Menn í háskólasamfélaginu eru ekki sammála um hversu há framlög fylgja hverjum nemanda. Það fer eftir því hvort menn taka rannsóknirnar inn eða ekki. Það er því ekki hægt að bera þetta svona saman, hæstv. forseti, að taka einungis kennsluþáttinn, því það voru á sínum tíma mjög veigamikil rök að ríkisháskólarnir hafa yfir umtalsverðu rannsóknarframlagi að ráða sem kemur auðvitað til með að hækka framlag ríkisins á hvern nemanda miðað við hina svokölluðu einkaháskóla eða sjálfstæðu háskóla. Það er því ekki hægt að bera þetta svona saman og í rauninni má segja að verið sé að bera saman epli og appelsínur.

Varðandi sjálfseignarstofnanir er alveg ljóst af minni hálfu að ég mun ekki beita mér fyrir því að ríkisháskólunum sé að sinni hægt að breyta í sjálfseignarstofnanir. Það held ég að sé of víðtæk aðgerð í bili en engu að síður tel ég rétt að við þurfum að huga að stjórnarfyrirkomulagi og umhverfi ríkisháskólanna þannig að þeir geti með raun og sanni staðið í þeirri samkeppni sem þeir standa í nú um þessar mundir og það er verkefni sem á alltaf að vera uppi á borðum hvernig á að móta umhverfi háskólanna þannig að þeir geti haldið áfram að þróast eins og þeir kjósa og hvernig þeir telja hag sínum best borgið innan slíks umhverfis. Það skiptir okkur mjög miklu máli að ríkisháskólarnir búi í slíku umhverfi að þeir geti haldið áfram á þeirri braut sem þeir eru núna en þeir hafa verið á mjög jákvæðri braut bæði varðandi fjölgun nemenda og síðan hvernig þeir hafa hagað fyrirkomulagi sínu þegar kemur að rannsóknum.