131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:22]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra sem ég skil á þann veg að ekki verði frekari áform að sinni um að breyta námi sem í dag er veitt á vegum háskóla í eigu ríkissjóðs yfir í nám á vegum skóla sem ekki er í opinberri eigu, þannig að ekki verði frekari áform um að fara lengra inn á þá braut sem þetta frumvarp kveður á um.

Ég held, virðulegi forseti, að menn verði auðvitað að jafna aðstöðu háskólanna. Sá umbúnaður málsins má ekki vera þannig af hálfu Alþingis að skólar sem eru einkaskólar eða sjálfseignarstofnun fái meira opinbert fé til að veita fræðslu í tiltekinni grein en skóli sem er í eigu ríkissjóðs. Ef við ætlum að hafa samkeppni í háskólaumhverfinu, sem ég er alls ekki andvígur eins og ég gat um í ræðu minni, þá verða menn að standa jafnfætis a.m.k. af hálfu ríkisins.

Ég vil ítreka fyrirspurn mína um umfang það sem áform er um að verði í Reykjanesbæ í þeirri kennslu sem þar er greint frá.