131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:26]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík tekur til grundvallaratriða í háskólastarfsemi á Íslandi. Samfylkingin telur að sameining skólanna geti verið góður kostur og haft í för með sér ýmis sóknarfæri. Við vildum að sjálfsögðu skoða þessa sameiningarkosti með jákvæðum og opnum hug en framganga ríkisstjórnarflokkanna og að ekki hafa fengist svör við mörgum grundvallarspurningum er varða tilvist og fyrirkomulag hins nýja skóla hefur hins vegar orðið til þess að við getum ekki stutt málið. Við fluttum í gær breytingartillögu sem átti að leiða til þess að hinn nýi skóli yrði sjálfseignarstofnun en ekki einkahlutafélag en hún var felld. Ósvarað er stórum spurningum eins og hafa komið fram í máli margra menntamanna og skólamanna að undanförnu um áhrif rekstrarformsins, einkahlutafélagsins, á hið akademíska frelsi hinnar nýju stofnunar. Fram hafa komið efasemdir um að hún leiði til þess að vegið sé að akademísku frelsi stofnunarinnar sem er að sjálfsögðu grundvöllur undir starfsemi hennar. Sé það svo að sjálfseignarstofnunarformið henti ekki fullkomlega eða nægjanlega til reksturs á háskólastofnun eigum við að sjálfsögðu að fara þá leið að endurskoða lög um sjálfseignarstofnanir en ekki setja akademíska stofnun inn í einkahlutafélag sem leiðir til þess að stofnunin geti búið við skert akademískt frelsi. Þessa leið áttum við ekki að fara.

Þá er ósvarað spurningum sem verða að liggja fyrir um valfrelsi og aðgengi að tækninámi til framtíðar samhliða því að tækninámið sé tekið sem háskólagrein út úr opinberum skólum og sett inn í einkarekinn skóla gegn skólagjöldum verður að mínu mati að leiða til þess að sambærilegt nám sé hafið við annan skóla þannig að nemendur hafi áfram val um að sækja nám í tæknifræðum við opinbera skóla eða einkarekinn og valfrelsi og jafnrétti til náms ríki í tækninámi sem og flestum öðrum háskólagreinum á Íslandi.

Þá er ósvarað að mínu mati framtíðaráhrifum þess að ein grein, eins og tækninám, sé með þessum hætti tekin út úr öðrum greinum og einungis aðgengileg gegn háum skólagjöldum í einkareknum skóla og hvort þetta muni leiða til þess, eins og rektor Háskólans á Akureyri hefur m.a. bent á, að engin rök séu fyrir því að opinberu skólarnir fái ekki heimild til gjaldtöku á grunnnám sitt. En slík breyting væri mjög slæm og gengi gegn öllu jafnrétti til náms og hvatningu til frekari skólasóknar í háskólana. Vegna þess að áhrif rekstrarformsins á akademískt frelsi liggur alls ekki fyrir og fram hafa komið sterkar efasemdir um að það skerði það verulega og vegna óvissu um framtíðargjaldtöku skólagjalda á grunnnám á háskólastigi getur Samfylkingin ekki stutt þetta mál.