131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með samþykkt þessa frumvarps sem við erum að fara að greiða atkvæði um er verið að sameina tvo tiltölulega smáa háskóla í eina sterka háskólastofnun. Og það sem meira er, þessi breyting felur í sér 300 millj. kr. innspýtingu frá einkaaðilum inn í menntakerfið. Þetta eru söguleg tímamót sem ber að fagna og við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum gera það og það sem meira er, við höfum fundið það við meðferð þessa máls að nemendur þessara tveggja skóla, kennarar, stjórnendur og eigendur hafa allir fagnað málinu og þrýst á að það verði samþykkt bæði hratt og vel. Það ætlum við að gera í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram undan er.

Stjórnarandstaðan hefur hins vegar kosið að láta óskir og þarfir allra þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli sem vind um eyru þjóta. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti þessu máli af ástæðum sem hér hafa komið fram og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði ágætlega grein fyrir. Það er gert á grundvelli hugmyndafræði sem hefði átt ágætlega við í Ráðstjórnarríkjunum fyrir nokkrum áratugum síðan en er að mínu mati barn síns tíma.

En þáttur Samfylkingarinnar er meiri sorgarsaga í þessu máli. Sá stjórnmálaflokkur sem á tyllidögum talar fjálglega um mikilvægi menntakerfisins og eflingu þess notar nú tækifærið til þess að styðja ekki þessa sameiningu. Það mun koma í ljós við þessa atkvæðagreiðslu að Samfylkingin er á móti þessari sameiningu. Hún er á móti þeim nýja háskóla sem stofnaður verður á grunni hinna tveggja nú á næstu dögum. Þeir verða að eiga það við sig. En við þingmenn Sjálfstæðisflokksins stöndum að baki þessu fólki. Við stöndum að baki þessum skóla, nemendum hans, eigendum og stjórnendum og munum segja já. (Gripið fram í: Aðallega eigendum.)