131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:34]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Á undanförnum missirum og árum höfum við Íslendingar staðið fyrir mikilli menntasókn á öllum stigum skólakerfisins. Ekkert land hefur aukið framlög jafnhratt til menntamála eins og við Íslendingar og ekki síst til háskólastigsins og menntasóknin heldur áfram. Nú erum við að varða áfram veginn í átt að því markmiði okkar að verða fremsta þekkingarsamfélag í heimi og við erum á réttri leið eins og allar tölur sýna.

Hins vegar er miður að sjá stjórnarandstöðuna og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson standa ekki að og styðja hinn nýja sameinaða háskóla og áframhaldandi uppbyggingu háskólasamfélagsins. Málflutningur þeirra hefur fremur einkennst af fyrirslætti og forsjárhyggju. En það er nú skráð á spjöld sögunnar.

Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, og óska hinum nýja háskóla velfarnaðar í starfi. Ég veit að hann mun standa undir væntingum og verða til þess að efla og styrkja innviði íslensks samfélags. Ég segi já.