131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norðurskautsmál 2004.

582. mál
[16:53]

Frsm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú háttar svo til varðandi þetta mál að það er einungis nýverið sem ég tók sæti í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um Norðurskautsmál og sat minn fyrsta fund á þeim vettvangi fyrir fáeinum dögum og kom heim í morgun af þeim fundi. Ég get þess vegna ekki vísað til minnar eigin reynslu nema að mjög takmörkuðu leyti varðandi vinnuna en hins vegar er ljóst að hér er um gríðarlega þýðingarmikið verkefni að ræða sem við þurfum eðlilega að taka þátt í.

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort þátttaka á afmörkuðum sviðum og afmörkuðum svæðum eins og þessum séu til einhvers fyrir þjóð eins og okkar, hvort þetta skili sér nokkuð vegna þess að hér er um að ræða svæði þar sem ekki býr mjög stór hluti af öllum heiminum. Þá vil ég vísa í því sambandi til ákaflega athyglisverðra viðræðna sem við hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Rannveig Guðmundsdóttir og sá sem hér stendur áttum m.a. við nýjan bandarískan öldungadeildarþingmann, Lisu Murkowski, sem vakti einfaldlega athygli á því að allt sem gerist í heiminum hefur með einum eða öðrum hætti áhrif á okkur sem búum norðar á hnettinum. Loftslagið og hafstraumarnir eru þess eðlis að þeir skila inn á norðurskautssvæðið öllu því góða og því slæma sem gerist annars staðar í heiminum. Mengun og aðrir vágestir gera vart við sig. Þess vegna er afskaplega þýðingarmikið fyrir okkur að við reynum að taka þátt í samstarfinu til að geta með sameiginlegum hætti brugðist við og vakið athygli á þeim vanda sem við kunnum að standa frammi fyrir. Auðvitað eru þjóðirnar misjafnlega vel settar. Íslendingar eru forrík þjóð. Við vitum hins vegar að íbúar t.d. í norðurhluta Rússlands búa við allt önnur kjör og frumbyggjar á þessum slóðum búa við aðra sögulega og menningarlega arfleifð. Engu að síður eigum við við ýmis sameiginleg vandamál að glíma sem náttúran hefur skapað okkur og þess vegna er eðlilegt að við störfum á þessum vettvangi.

Við sjáum líka að mörg sú umræða sem hefur átt sér stað undanfarin ár og lýtur að hlýnun andrúmsloftsins er umræða sem beinlínis snertir okkar svæði. Menn hafa vakið athygli á því að hlýnun andrúmsloftsins kunni að hafa dramatískari áhrif á norðurslóðum en víða annars staðar og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í starfinu.

Við skulum heldur ekki gleyma því að Íslendingar hafa verið frumkvöðlar. Við höfðum mjög mikið um það að segja þegar stofnað var til samstarfsins og Íslendingar hafa leitt það samstarf í hluta þess tímabils og að mati þeirra sem hafa fylgst með gert það með mjög ábyrgum og skynsamlegum hætti, undirbúið skýrslur sem hafa vakið mikla athygli sem lúta að félagslegri, menningarlegri og efnahagslegri stöðu íbúa á norðurskautssvæðinu. Segja má að þarna hafi á vissan hátt verið að brjóta í blað með því að setja málefni norðurskautsins í það pólitíska og félagslega samhengi sem þarna var gert.

Einnig hafa verið haldnar ráðstefnur á okkar vettvangi sem ríkisstjórnir hafa komið að og við gerum okkur grein fyrir að samstarfið mun í eðli sínu eflast og styrkjast vegna þess að verkefnin eru af þeim toga. Við höfum líka byggt upp sérstaka þekkingu á þessum sviðum á Akureyri, bæði í tengslum við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og í tengslum við Háskólann á Akureyri. Auðvitað er þýðingarmikið fyrir okkur að þekkingin verði ekki síst til hjá okkur þannig að við getum orðið mótendur og gerendur í málaflokknum á komandi árum.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að fara nánar yfir málið. Ég vil aðeins láta það koma fram að á þeim tíma sem skýrslan nær yfir voru fulltrúar í Íslandsdeildinni hv. þingmenn Sigríður A. Þórðardóttir formaður, Magnús Stefánsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Sá sem hér stendur var varamaður hv. þm. Sigríðar A. Þórðardóttur en þegar hún tók við starfi umhverfisráðherra tók ég við starfi hennar sem formaður Íslandsdeildarinnar. Ég er sannfærður um að við Íslendingar getum bundið miklar vonir við samstarfið og eigum að rækta það vel vegna eðlis þess, sérstöðu þess og vegna stöðu málsins í heiminum um þessar mundir.