131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Vestnorræna ráðið 2004.

567. mál
[16:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mun gera grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins um störf ráðsins á árinu 2004 en skýrslan í heild sinni er lögð fram á þskj. 855, 567. mál.

Meginmarkmið Vestnorræna ráðsins er að starfa að hagsmunum þessara þriggja grannríkja, Færeyja, Grænlands og Íslands og er ráðinu ætlað að gæta auðlinda, velferðar og menningar þjóðanna á sem víðtækastan hátt. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og áskorunum til ríkisstjórna og landsstjórna og með virkri þátttöku í norrænu samstarfi og samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum og skipulagningu á ráðstefnum og öðrum verkefnum. Vestnorræna ráðið rekur sérstaka skrifstofu í Reykjavík og hefur Ernst Olsen gegnt starfi framkvæmdastjóra sl. fjögur ár en lét af störfum þann 15. febrúar sl. Þá tók við starfinu Þórður Þórarinsson og er hann ráðinn til tveggja ára.

Í byrjun árs 2004 skipuðu Íslandsdeild eftirtaldir þingmenn: Birgir Ármannsson, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Guðrún Ögmundsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson, sem aðalmenn. Varamenn voru Gunnar Birgisson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigurjón Þórðarson.

Við upphaf 131. þings hinn 1. október urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildar að Kjartan Ólafsson tók sæti aðalmanns í stað Einars Odds Kristjánssonar og Anna Kristín Gunnarsdóttir tók sæti aðalmanns í stað Margrétar Frímannsdóttur. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson tók sæti varamanns í stað Önnu Kristínar. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 7. október var sá er hér stendur endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason varaformaður. Arna Gerður Bang, starfsmaður á alþjóðasviði Alþingis, gegndi starfi ritara Íslandsdeildar.

Fyrri hluta ársins 2004 bar hæst í starfi Íslandsdeildarinnar skipulagningu þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um orkumál sem haldin var í Reykjavík og Svartsengi dagana 9.–10. júní. Íslandsdeildin tók virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar og ræddi ýmsar tillögur að dagskrá, fyrirlesurum og erindum. Auk þess hafði deildin náið samráð við sérfræðinga iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til að gera ráðstefnuna sem besta.

Eins og flestum er kunnugt fór Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2004, þar sem áhersla var m.a. á Vestur-Norðurlönd. Af því tilefni boðaði Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins til fundar með Páli Péturssyni, ráðgjafa frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins og bauð Íslandsdeild Norðurlandaráðs að taka þátt í fundinum. Páll sagði fundarmönnum frá því sem til stæði á formennskuárinu og fóru fram góðar og gagnlegar umræður um árið og verkefni þess og þá viðburði sem skipulagðir voru.

Benedikte Thorsteinsson, formaður Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, var einnig gestur fundar Íslandsdeildar á árinu og ræddi m.a. um starfsemi félagsins og möguleika á frekari samvinnu milli vestnorrænu landanna, einkum með tilliti til samstarfs Íslendinga og Grænlendinga.

Eitt af stærstu verkefnum Vestnorræna ráðsins á árinu var ítarleg yfirferð yfir starfsreglur ráðsins, með það að markmiði að skerpa línurnar og gera reglurnar skýrari og skilvirkari. Mikil og góð vinna fór fram hjá Íslandsdeildinni sem lagði metnað sinn í að skila inn greinargóðum tillögum til breytinga. Hvatt var til þess í greinargerð Íslandsdeildar að forsætisnefnd mæti kosti þess og galla að lengja formennskutímabilið í ráðinu úr einu ári í tvö. Einnig lagði deildin áherslu á umræðu um það hvort nauðsynlegt væri að starf framkvæmdastjóra ráðsins væri fullt starf og skoða hvernig bæri að haga skrifstofurekstri ráðsins.

Skemmst er frá því að segja að á ársfundi ráðsins sem haldinn var í Narsarsuaq á Grænlandi í ágúst voru þessar hugmyndir og aðrar hugmyndir frá öðrum landsdeildum ræddar. Niðurstaðan varð sú að gera ekki tillögur um breytingar á þessum stóru dráttum í starfi ráðsins. Hins vegar fór fram viðamikil endurskoðun á vinnureglum sem lúta að innra starfi þess.

Eitt af stærri verkefnum ráðsins er veiting Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Á fundi sérstakrar dómnefndar í Kaupmannahöfn í júlí 2004 var bókin Engill í Vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur, myndskreytt af Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, valin sem vinningsbók. Niðurstaðan var kunngerð á ársfundi ráðsins í Narsarsuaq. Verðlaunin voru svo afhent vinningshöfunum formlega í Skála Alþingis 2. september. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru á vegum menntamálaráðuneyta landanna þýddar á vestnorrænu málin og skandinavísku og gert er ráð fyrir því að bækurnar komi að gagni í skólastarfi í löndunum þremur. Ávallt er lögð áhersla á að fyrir liggi þýðing á einhverju skandinavísku tungumálanna til að unnt sé að kynna bækurnar annars staðar á Norðurlöndum. Verðlaunin voru veitt í annað skiptið árið 2004. En samningur var gerður milli menntamálaráðuneyta landanna árið 2002 um að verðlaunin yrðu veitt annað hvert ár. Þau verða því næst veitt árið 2006.

Eins og áður er getið fór fram þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um orkumál í Reykjavík og Svartsengi í júní í fyrra. Á ráðstefnunni var sjónum beint að orkumálum Grænlands, Færeyja og Íslands og leitað var leiða til aukinnar samvinnu milli landanna á þessu mikilvæga sviði. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að efla upplýsingaflæði landanna í milli í þessum málaflokki og finna fleti á frekara samstarfi. Þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi báru saman bækur sínar um ástandið í orkumálum ríkjanna. Þess má geta að fjölmargir alþjóðlegir sérfræðingar fluttu erindi um margvíslegar hliðar orku- og umhverfismála. Þeir ráðherrar ríkjanna sem fara með orkumál sóttu ráðstefnuna, svo og fulltrúar Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og norska þingsins. Rætt var um mikilvægi þess að vestnorrænu löndin ynnu saman að þróun endurnýjanlegrar orku. Í vestnorrænu löndunum er til sérfræðiþekking og tækni í sambandi við umhverfisvæna endurnýjanlega orku og orkusparnað og er víðtækur vilji til að þróa þá tækni enn frekar

Löndin þrjú hafa að sameiginlegu markmiði að minnka notkun þessara orkugjafa sem ekki eru endurnýjanlegir og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa svo sem vatns- og vindorku, jarðvarma og vetnis. Orkumálaráðherrar landanna ítrekuðu stuðning sinn við frekari samvinnu og sögðu yfirvöld tilbúin að skoða nánara samstarf landanna þriggja á því sviði. Mikil þróun hefur orðið á þessum sviðum á undanförnum árum. Ljóst er að aukin samvinna getur veitt þjóðunum styrk og getu til að skoða frekar nýja möguleika og læra hver af annarri og var það von þátttakenda að umræður og fræðsla á ráðstefnunni yrði gott veganesti og styrkti samstarf vestnorrænu landanna í sviði orkumála.

Eins og áður er getið fór ársfundur Vestnorræna ráðsins fram dagana 20.–24. ágúst í Narsarsuaq á Grænlandi. Sá sem hér stendur var kosinn formaður ráðsins, Henrik Old frá Færeyjum varaformaður og Jonathan Motzfeldt frá Grænlandi annar varaformaður. Eins og kunnugt er er formennskutímabilið eitt ár og flyst milli landanna eftir ákveðnum reglum. Ákveðið var að þemaráðstefna starfsársins 2005 yrði tileinkuð sjávarútvegsmálum og haldin í Færeyjum.

Formaður gerði grein fyrir endurskoðun á starfsreglum ráðsins fyrir utan kafla sem fjallar um skrifstofurekstur og voru þær samþykktar einróma. Í framhaldinu áttu sér stað umræður innan landsdeildanna varðandi skrifstofurekstur og starfsmannamál og tekin var sameiginleg afstaða til þeirra. Formenn landsdeilda lýstu yfir stuðningi við tillögu sem gekk út á ástand sem í meginatriðum er óbreytt, þ.e. að starf framkvæmdastjóra væri fullt stöðugildi og skrifstofureksturinn yrði til staðar í tengslum við alþjóðasvið Alþingis eins og verið hefur.

Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum. Fyrst er að nefna ályktun um eflingu vestnorræns samstarfs í orkumálum. Þar er skorað á ríkis- og landsstjórnir landanna þriggja að efna til samstarfs um orkumál þjóðanna með áherslu á sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Einnig var samþykkt ályktun um að auka samvinnu landanna þriggja í tengslum við vandamál í sjávarútvegi í sambandi við Evrópusambandið. Þriðja ályktunin leggur til að gerð verði verkáætlun um hvernig styrkja megi rannsóknir á loftslagsbreytingum með Norður-Atlantshaf sem rannsóknasvið. Ályktanir fundarins voru samþykktar samhljóða.

Herra forseti. Fjölbreytt verkefni bíða Vestnorræna ráðsins á árinu 2005. Ársfundurinn verður, eins og áður kom fram, haldinn á Íslandi í ágúst næstkomandi. Þemaráðstefna ráðsins verður í Þórshöfn í Færeyjum í júní. Íslandsdeild ráðsins hefur þegar hafið undirbúning þessara funda og eru viðræður við aðila sem lagt geta málefnunum lið hafnar, bæði við sérfræðinga og þau ráðuneyti sem málin varða. Það er því ljóst að margvísleg málefni eru á döfinni á næstu missirum hjá Vestnorræna ráðinu sem snerta auðlindir, velferð og menningu og er það von Íslandsdeildar að þessum málum verði áfram sýndur sá áhugi á Alþingi sem verið hefur.

Læt ég hér lokið máli mínu um störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins á árinu 2004.