131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upphæð ellilífeyris og skerðingarreglur.

[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra, m.a. í tilefni umræðu sem farið hefur fram að undanförnu um stöðu eldri borgara, hvort fjármálaráðherra telji eðlilegt og muni jafnvel samþykkja að grunnlífeyrir og tekjutrygging eldri borgara verði hækkuð til samræmis við þá þróun sem orðið hefur miðað við laun verkamanna frá 1991, frá þeirri viðmiðun, í þeim tilgangi að efla stöðu eldri borgara og gefa þeim betri tækifæri til framfærslu.

Ég vil einnig spyrja fjármálaráðherra hvort hann telji að það sé eðlileg frambúðarregla að bætur lífeyrisþega séu áfram skertar eftir hinni svokölluðu 45% reglu, þ.e. af hverjum 10 þús. kr. tapist 4.500 úr bótunum, hverjum 10 þús. kr. sem koma úr lífeyrissjóði eða tekjum, og hvort hann telji eðlilegt og sé ásættanleg útfærsla í svari sem ég fékk í dag varðandi stöðu eldri borgara að það séu aðeins 347 ellilífeyrisþegar af 25 þúsund sem fái óskerta tekjutryggingu. Er þessi regla sem beitt er ekki algerlega ósanngjörn?