131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upphæð ellilífeyris og skerðingarreglur.

[15:08]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað hv. þingmaður er að fara með þessari umræðu á þessum vettvangi og undir þessum þingskapalið vegna þess að þetta er stórt mál sem er mikið rætt í þinginu við ýmis önnur tækifæri. Ég veit ekki betur en að t.d. einn samflokksþingmaður þingmannsins, hv. þm. Gunnar Örlygsson, hafi beðið um utandagskrárumræðu sem beint yrði til þess ráðherra sem fer með þessi mál, þ.e. heilbrigðisráðherra. Er ekki rétt að eftir því hafi verið óskað? Ég átta mig því ekki alveg á hvaða samkeppni er í gangi milli þingmanna Frjálslynda flokksins um að koma upp í ræðustólinn til að fjalla um þetta mál. Ég held að kannski þurfi að koma með einhverjar skýringar á því líka. Ég vil hins vegar ekki að draga úr því að málefni eldri borgara og lífeyrisþega eru auðvitað mjög mikilvæg en það hjálpar ekki mikilvægu málefni að draga það ofan í svaðið í umræðu sem missir marks með þeim hætti sem hér hefur verið gert.