131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upplýsingaskylda fjármálastofnana til skattstjóra.

[15:10]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í tilefni af ummælum ríkisskattstjóra um helgina, en hann heldur því fram að meira yrði talið fram og minni hætta á skattsvikum ef bönkum og fjármálastofnunum yrði gert að gefa upplýsingar um fjármagnseign og viðskipti skattgreiðenda eins og gert er á annars staðar á Norðurlöndunum. Ríkisskattstjóri bendir á og haft er eftir honum í Morgunblaðinu um helgina að eftir að Svíar breyttu lögum sínum í þá veru að upplýsingar koma frá fjármálastofnunum sjálfkrafa um þessi efni þá hafi skattskil aukist um 20% þar í landi. Orðrétt segir ríkisskattstjóri, Indriði H. Þorláksson, með leyfi forseta:

„Það er engin efi á því að auðveldara yrði að fylgjast með skilunum og minni hætta á svikum. Ég vonast til að sett verði slík lög hér eins og víða hefur verið gert.“

Fyrirspurn mín til hæstv. ráðherra er þessi: Kemur til greina að ríkisstjórnin og þá hæstv. fjármálaráðherra beiti sér fyrir lagasetningu af slíku tagi hér á landi?