131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upplýsingaskylda fjármálastofnana til skattstjóra.

[15:13]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að hafa miklar áhyggjur af fólki sem á miklar eignir í bönkum og að hjálpa því að pukrast með eignir sínar. Að sjálfsögðu á fólk að greiða skatt af þessum eignum.

Ég fagna hins vegar svari hæstv. ráðherra. Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hans að eflaust er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná þessu marki. Ég hef trú á því að Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri sé mjög raunsær á þessi mál en hann er mjög afdráttarlaus í yfirlýsingum sínum og bendir á að í 20 af 30 ríkjum OECD, þar á meðal í Bandaríkjunum, fái yfirvöld þær upplýsingar sem hér er um að ræða sjálfkrafa. Indriði H. Þorláksson segir að sér finnist sjálfsagt að lögum verði breytt í þá veru hér á landi.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra og fagna því að þessi mál verði tekin til skoðunar. Það er fyrir öllu.