131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Starfshópur um viðbúnað vegna efna-, sýkla- og geislavopna.

[15:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt að niðurstöður um svo merkilegt mál, svo mikilvægar niðurstöður úr svo áríðandi starfshópi, skuli hafa legið í þagnargildi uppi í dómsmálaráðuneyti einungis vegna þess að enginn hefur spurt um málið á Alþingi. Það vildi bara þannig til að ég rakst á frétt um þennan starfshóp og þótti þetta merkilegt mál, enda mikið lagt upp úr því í tilkynningunni frá ráðuneytinu þar sem, eins og ég sagði áðan, um sé að ræða eitt helsta viðfangsefni og verkefni vestrænna ríkisstjórna nú um stundir.

Þess vegna hljómar það mjög ankannalega og sérkennilega að taka þurfi málið sérstaklega upp hér á þingi til að ýta við því að hæstv. ráðherra dómsmála kynni niðurstöður skýrsluhöfunda. Ég skora á hann að gera það hið snarasta og kynna fyrir bæði þjóð og þingheimi þær væntanlega mikilvægu niðurstöður sem þarna er að finna í ljósi þess hve brýnt málið er samkvæmt tilkynningunni frá ráðuneytinu sjálfu og því erindisbréfi sem starfshópurinn fékk á sínum tíma.