131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Starfshópur um viðbúnað vegna efna-, sýkla- og geislavopna.

[15:22]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Mér hefur ekki borið nein skylda til að kynna þessar niðurstöður sérstaklega í þinginu. Þetta var ekki nefnd sem var skipuð á grundvelli neinnar ályktunar Alþingis. Þetta var nefnd sem ég skipaði til að vinna ákveðið verk á vegum dómsmálaráðuneytisins og síðan í tengslum við þá öryggisgæslu sem þarf að hafa uppi í landinu. Engin skylda hvílir á mér að leggja slíka skýrslu fram á þingi.

Ég hef hins vegar látið vinna skýrslu sem liggur fyrir um björgunarstörf og slíka hluti sem var ályktað um. Sú skýrsla er til og verður lögð fram á þinginu en skýrslur sem ekki er beðið um sérstaklega af þinginu ber mér engin skylda til að leggja fram.