131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Eignarhald á Hótel Sögu og fleiri fyrirtækjum.

[15:26]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þetta er ekki alveg svona einfalt. Sumar þessar stofnanir sem ég nefndi, eins og Mjólkurbú Flóamanna og fleiri, eru reknar sem sjálfseignarstofnanir og þar eiga menn stofnfé eins og í sparisjóði. Þegar þeir svo falla frá ber dánarbúinu að innleysa stofnbréfið á nafnverði. Allur arðurinn, allur hagnaðurinn, arður margra ára sem byggist á því að mjólkurverð hefur verið of lágt til bænda situr eftir. Enginn á hann, ekki einu sinni bóndinn sem lagði hann til. Þessu þarf að breyta með lögum, það er ekki hægt öðruvísi, og ég reikna með að það sé svipað með Bændahöllina, að þar þurfi að breyta lögum til að fjármagnið geti farið aftur til bændanna sem lögðu það fram. Ég ber hagsmuni bænda fyrir brjósti. (Gripið fram í: … þjóðnýta.)