131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Kynferði og eignarhald í atvinnurekstri og landbúnaði.

[15:33]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum svörin sem hér hafa komið fram um það að hún hefur skipað nefnd og ritað bréf til stjórnenda stærstu fyrirtækja. En hefur hæstv. viðskiptaráðherra ekki hugleitt að fara norsku leiðina sem ég hygg að þingheimur kannist við og svínvirkaði í Noregi, ef ég má komast þannig að orði, þar sem sú hótun lá í loftinu að lög yrðu sett um hlutfall stjórnarmanna í fyrirtækjum? Það virkaði þannig að fyrirtækin tóku loksins við sér og fjölguðu konum í stjórnum, fyrst ríkisfyrirtækin og nú í raun liggur sú hótun í loftinu hvað varðar almenningshlutafélag þar í landi. Það sýnir sig, hæstv. forseti, að það þarf að beita aðgerðum. Bréf eru góðra gjalda verð, kurteislega orðuð, en það þarf að beita þrýstingi sem dugar á frammámenn íslenskra fyrirtækja og forráðamenn í íslensku atvinnulífi ef við ætlum ekki að vera með þetta 10% jafnrétti til eilífðarnóns í stjórnum íslenskra fyrirtækja.