131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:42]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. málshefjandi þekkir afar vel er liðinn langur tími frá því að hafist var handa við að undirbúa endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Hv. þm. Halldór Blöndal var samgönguráðherra á þeim tíma þegar sú vinna hófst fyrir alvöru og allt það starf, að undirbúa endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar, var unnið í góðu samstarfi við borgaryfirvöld og aðra þá sem að þessu máli þurfa að koma, svo sem hagsmunaaðila í flugrekstri og ferðaþjónustu.

Það var síðan vorið 1999 sem gert var sérstakt samkomulag við borgaryfirvöld vegna endurbyggingar flugvallarins og með því samkomulagi hófust framkvæmdir. Framkvæmdaleyfi var veitt af til þess bærum aðilum, skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar fjölluðu um það, borgarráð og borgarstjórn, að heimila endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar á grundvelli þess skipulags sem þá var í gildi.

Ég tel að þetta hafi verið skynsamlegar ákvarðanir og í kjölfar þeirra var síðan samþykkt á Alþingi í maímánuði árið 2000 flugmálaáætlun sem gerði ráð fyrir fjármögnun þessara framkvæmda, fjármögnun framkvæmda við endurgerð Reykjavíkurflugvallar. Síðan þekkja menn, og hv. þingmenn, vel söguna, hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Því verki er lokið, að endurbyggja flugvöllinn, en síðan hefur verið í undirbúningi að bæta aðstöðu að öðru leyti, eins og að koma upp samgöngumiðstöð sem fjallað var um í samgönguáætlun sem afgreidd var hér í þinginu. Þessi vilji hefur verið afskaplega skýr í þinginu, um hvernig bæri að standa að því að tryggja miðstöð innanlandsflugs í Reykjavík frá Reykjavíkurflugvelli. Ég hef sem samgönguráðherra lagt á það mikla áherslu að fyllsta öryggis væri gætt og að uppbyggingin væri í samræmi við ýtrustu kröfur þannig að Reykjavíkurflugvöllur væri sem bestur.

Hvers vegna er svo verið að þessu? Jú, það er vegna þess að innanlandsflugið á Íslandi skiptir miklu máli. Það skiptir mjög miklu máli í okkar stóra og dreifbýla landi að við nýtum flugið fyrir íbúa landsins alls, jafnt höfuðborgar sem landsbyggðar, og að við nýtum flugið til að styrkja atvinnulífið, ferðaþjónustuna o.s.frv. Nú hefur þróunin í fluginu verið á þann veg að það hefur vaxið. Á milli áranna 2002 og 2003 var vöxtur eftir lægð sem varð upp úr 2000. Síðan hefur vöxtur orðið í innanlandsfluginu til áætlunarflugvallanna og á milli áranna 2003 og 2004 varð 8,9% aukning.

Það eru ríkar ástæður fyrir því að við höfum bætt aðstöðuna hér fyrir innanlandsflugið. Hv. málshefjandi spyr hvort ég geti fallist á að meginflugbrautin, norður/suður brautin, verði lögð af. Ég tel að það sé alveg ljóst að við verðum að standa þannig að rekstri flugvallarins að ýtrasta öryggis sé gætt og þá verða að sjálfsögðu að vera þær flugbrautir til staðar sem til þarf. Ég á mjög erfitt með að ímynda mér að hægt sé að reka Reykjavíkurflugvöll með einni braut.

Það liggur held ég nokkuð ljóst fyrir en hins vegar hef ég lagt áherslu á það að eiga gott samstarf við borgaryfirvöld um þessa hluti og gera athuganir og úttektir á því hvernig við getum dregið saman það svæði sem þarf að nýta fyrir flugstarfsemina. Umfram allt þurfum við að sjálfsögðu að tryggja að flugbrautirnar uppfylli allar þær ýtrustu kröfur sem við verðum að gera. Ég tek undir það með hv. málshefjanda að auðvitað þurfum við að stytta leiðir á milli landshluta en ég tel að besta og öruggasta leiðin til að tryggja samgöngurnar með landsamgöngunum um vegina sé að innanlandsflugið hafi öfluga miðstöð hér á Reykjavíkurflugvelli.