131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:53]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir viljayfirlýsing milli R-listans í Reykjavíkurborg og Sjálfstæðisflokksins með Sturlu Böðvarsson í broddi fylkingar um að framtíð innanlandsflugs á Íslandi verði áfram best borgið í Vatnsmýrinni, einhverju albesta byggingarlandi borgarinnar. Að sama skapi hendir R-listinn frá sér möguleika á að hagnast um fleiri milljarða króna á sölu byggingarlands í Vatnsmýrinni, fé sem hefði sannarlega getað nýst til öflugra velferðarmála í borginni á komandi árum. Eftirsóttustu byggingarlönd hvar sem er í veröldinni eru oftast byggð einstaklingum sem eru efnameiri og tekjuhærri í hverju þjóðfélagi fyrir sig. Því má óhikað segja að dýrmætt byggingarland Vatnsmýrarinnar mundi nýtast þeim efnaminni á kostnað þeirra efnameiri ef rétt verður haldið á spilunum.

Eins og flest ykkar í virðulegum sölum Alþingis hef ég ferðast víða. Hvergi að mínu viti er að finna flugvöll í miðhluta borga, hvað þá höfuðborga. Það hlýtur að teljast eðlilegt að staðsetning flugvallar til nota innan lands sé í jaðri höfuðborgarinnar.

Með flutningi á starfsemi innanlandsflugs til Keflavíkur skapast í fyrsta lagi möguleiki á reynslutíma Keflavíkurflugvallar í því hlutverki. Í annan stað myndast möguleiki til mikilla sölutekna hjá Reykjavíkurborg. Í þriðja lagi skapast tími og ráð að skoða framtíðarstaðsetningu á innanlandsflugi ef Keflavíkurflugvöllur sem slíkur kostur yrði ekki góður. Í því sambandi má benda á land sunnan Hafnarfjarðar sem spennandi kost en fleiri möguleikar eru að sjálfsögðu í stöðunni. Það er að mínu mati skynsamleg leið og býður upp á þann augljósa kost að eyða ekki skattfé borgarbúa að óþörfu.