131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:57]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Miðað við þær tölur sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni, þá veit ég ekki með hvernig rellum hann flýgur á milli landshluta, en ég dreg þessar tölur afskaplega mikið í efa.

Hér er hins vegar vakin upp undarleg umræða. Hún hefur sig til flugs á Reykjavíkurflugvelli, millilendir í Keflavík og mér heyrðist hv. þm. Ögmundur Jónasson brotlenda henni á Stórasandi í 800 m hæð og hvassviðri miklu.

Þetta er viðkvæmt þverpólitískt mál eins og hér hefur komið fram, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, innan flokka og þar fram eftir götunum. Mér finnst það hins vegar athyglisvert að öðrum þræði er talað um hinn gullna þríhyrning, Suðurnesin, Borgarnes og Árborg, sem eitt atvinnusvæði. Gott og vel. Ég get tekið undir það. Hins vegar þegar kemur að því að færa verkefni af einu svæði yfir á annað á þessu sameiginlega athafnasvæði, hvort heldur er landhelgisgæsla til Suðurnesja eða innanlandsflug til Keflavíkur, þá er þetta allt í einu ekki eitt atvinnusvæði. Þá sjá menn mikil vandamál.

Frú forseti. Það virðist margt stefna í að við þurfum að taka við rekstri Keflavíkurflugvallar sem kostar vel yfir einn milljarð kr. Þá þurfum við jafnframt að svara því hvort við ætlum sem þjóð að reka tvo alþjóðlega flugvelli og það eru einungis 50 km á milli þeirra. Það er ein af þeim spurningum sem við þurfum að sjálfsögðu að svara.

Við þurfum líka að skoða þetta, eins og hefur komið fram í umræðunni, út frá þéttingu byggðar. Hvaða áhrif hefur það á skipulagsmál Reykjavíkur? Hvaða áhrif hefur það að búa til enn eitt hverfið í mikilli fjarlægð og færa síðan íbúa einstakra hverfa fram og aftur um hverfin á hverjum degi? Hvaða efnahagsleg, þjóðhagsleg og umhverfisleg áhrif hefur það?

Frú forseti. Ég held að sé mjög tímabært, og tek undir það hjá hv. þm. Kristjáni Möller, að við setjumst yfir málið og skoðum hagkvæmni þess að hafa innanlandsflugið hér eða annars staðar og komast að einhverri sameiginlegri vitrænni niðurstöðu.