131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[16:07]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða og um margt fróðleg. Ég vona að það sem hér hefur verið sagt upplýsi bæði þingmenn og ekki síður þá sem fylgjast með umræðunni.

Ég fagna því að hv. þm. Kristján L. Möller hvetji til þess að menn nái sáttum í þessu efni þrátt fyrir ræðu félaga hans Helga Hjörvars. Ég hvet hann mjög eindregið til þess að beina því til félaga sinna í Samfylkingunni. (KLM: … sjálfstæðismenn í borgarstjórn.)

Ég tók eftir því að hv. þm. Gunnar Örlygsson hvatti til þess mjög eindregið að menn færu vel með skattfé borgaranna. Hann hvatti til þess jafnframt að byggja nýjan flugvöll fyrir sunnan Hafnarfjörð. Ég held að afskaplega illa væri farið með skattfé borgaranna ef við tækjum okkur nú upp, nýbúin að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll, og byggðum nýjan flugvöll á milli Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar. Ég held að þá væri þetta allt saman fullkomnað þannig að ég get ekki tekið undir þau sjónarmið.

Ég vek athygli á því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér, það er gert ráð fyrir því samkvæmt því skipulagi sem var í gildi þegar ákvarðanir voru teknar um endurbyggingu flugvallarins að hann yrði til 2016. Ég lít svo til að til þess að hróflað verði við honum á þeim tímapunkti þurfi samkomulag milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda. Ekki verður tekin einhliða ákvörðun — það held ég að sé mat allra sem þekkja til málsins — um að flugvöllurinn fari.

Hvað varðar rannsóknir á hálendinu vegna fyrirspurnar hv. málshefjanda (Forseti hringir.) eru í gangi veðurathuganir á hálendinu. Ég tel að þegar búið er að fara yfir þær verði að sjálfsögðu hægt að taka einhverjar ákvarðanir um hálendisvegi, aðra en þá sem (Forseti hringir.) eru á samgönguáætlun. Ég sé ekki fyrir mér að ákvarðanir (Forseti hringir.) um slíka vegagerð liggi fyrir á næstu missirum.