131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:41]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi annan skilning á þessu en ég og nefndin því það sem við gerðum í þessu tilviki var að við töldum að orðalagið sem kom frá flytjanda frumvarpsins, hæstv. umhverfisráðherra, væri órökrétt og þyrfti að laga það. Þar var talað um ótakmarkaða veiði á stofni innan tímabilsins en það þolir auðvitað enginn stofn ótakmarkaða veiði þannig að orðalagið passar ekki við meininguna. Það sem við settum í staðinn var að það mætti banna sölu ef ástæða væri til að takmarka veiðina. Takmörkunin í tilviki sölubanns fer fram með sölubanni. Það er sem sagt talin sjálfstæð gild aðferð til að takmarka veiði og þurfi … (HBl: … lesa textann.) Ég var að lesa textann. Hann er svona. Ég er að segja hv. þingmanni það, forseti, að þetta er meiningin með textanum. Það er hægt að takmarka veiðar á ýmsan hátt. Það er hægt að gera það svæðisbundið, það er hægt að gera það með því að stytta veiðitímann, það er hægt að gera það með því að takmarka veiði innan sólarhrings. Svo eru nokkrar aðferðir í viðbót og enn ein aðferð er að setja sölubann á fenginn, á aflann. Það er sú takmörkun sem hér er um að ræða. En það er sjálfsagt að rannsaka þetta betur ef málskilningur manna er þannig að sölubann sé því aðeins leyfilegt að einhver önnur takmörkun sé líka í spilinu. Það var ekki um það að ræða af okkar hálfu sem stöndum að þessu nefndaráliti.