131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[18:24]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsnefnd hefur fjallað um frumvarp um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lög um stjórn fiskveiða, lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi og lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Í frumvarpinu var m.a. lagt til að breytingar yrðu gerðar á öllum þessum lögum sem fela í sér að fella niður lágmarksrefsingu vegna brota á lögunum, reglum settum samkvæmt þeim, viðkomandi lögum eða leyfisbréfum sem varða nú lágmarkssektum að fjárhæð 400 þús. kr.

Töluverð umræða varð um málið í sjávarútvegsnefnd og þá sérstaklega ef um gáleysisbrot væri að ræða þar sem töluverður munur er á gáleysisbrotum og ásetningsbrotum. Nefndarmenn voru sammála því að erfitt sé að láta dómstóla standa frammi fyrir því að geta ekki dæmt lægri sekt en 400 þús. kr. ef um fyrsta brot er að ræða.

Með breytingum þessum erum við að skapa svigrúm fyrir dómstóla að taka ákvarðanir um sektir án þess að um lágmark sé að ræða við fyrsta brot. Einnig var umræða um hvort hámarkssekt eigi að vera og hvernig ætti að taka á ítrekuðum brotum en það eru einu breytingartillögur sjávarútvegsnefndar við frumvarpið. Einnig ber að geta þess að þegar átt er við að um ítrekuð brot sé að ræða er verið að ræða um ítrekað sambærilegt brot. Það er því mikilvægt að það komi fram. Breytingartillögur sem hér eru lagðar fram eru gerðar í góðri samvinnu og fullu samráði við 1. flutningsmann frumvarpsins, hv. þm. Örlyg Hnefil Jónsson.

Ég mæli nú fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, frá sjávarútvegsnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Hafrannsóknastofnuninni, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Félagi kvótabátaeigenda, ríkissaksóknara, Vélstjórafélagi Íslands, lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, Landssambandi smábátaeigenda og Lögmannafélagi Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að sektarlágmörk vegna brota á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands verði felld brott. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það sé skoðun flutningsmanna að viðurlög að lágmarki 400.000 kr. fyrir hvers kyns brot á tilgreindum lögum án tillits til þess hvort brot sé framið af ásetningi eða gáleysi takmarki svigrúm dómstóla um of til að dæma sektarrefsingu í samræmi við alvarleika brots. Er það tilgangur þeirra lagabreytinga sem frumvarpið mælir fyrir um „að koma í veg fyrir að smávægilegar yfirsjónir kosti viðkomandi 400.000 kr. heldur geti dómstólar litið á hvert mál fyrir sig og ákveðið viðurlög innan rýmri refsiramma en nú er heimilt“.

Nefndin tekur undir að umrædd sektarlágmörk geti í einstökum tilvikum leitt til ósanngjarnar viðurlagaákvörðunar af hálfu dómstóla. Þó er það álit nefndarinnar að almennt sé réttmætt að mæla fyrir um tiltölulega þung viðurlög við brotum á fiskveiðilöggjöfinni, einkum þegar um ítrekað brot er að ræða. Byggist þessi skoðun nefndarinnar á því að almennt verður að telja að fjárhagslegur hvati til brota á fiskveiðilöggjöfinni sé mikill og brotaleiðir jafnframt margvíslegar og því mikilvægt að varnaðaráhrif viðurlagaákvæða séu skýr og öllum augljós. Þá verður almennt talið að reglur sem settar eru til að stýra sókn í takmarkaða auðlind, eins og ákvæði íslenskra laga um stjórnkerfi fiskveiða, séu sérlega viðkvæmar fyrir hvers kyns brotum gegn þeim. Eru skýr og ótvíræð viðurlög því mikilvægur þáttur í að tryggja virkni laganna og virðingu fyrir þeim.

Með vísan til þessara sjónarmiða leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að einungis verði felld niður sektarlágmörk þegar um fyrsta brot á ákvæðum laganna er að ræða. Hins vegar verði með samræmdum hætti í þeim fjórum lagabálkum sem frumvarpið varðar mælt fyrir um 400.000 kr. lágmarkssekt ef um ítrekað brot er að ræða.

Nefndin lítur svo á að þessar breytingar gefi dómstólum almennt ekki tilefni til að beita lægri sektum vegna brota á lögunum en tíðkast hafa heldur er tilgangur breytinganna fyrst og fremst að tryggja að þeim sé unnt að gæta sanngirni þegar um fyrsta brot er að ræða og brot telst smávægilegt.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Jón Bjarnason var viðstaddur afgreiðslu málsins sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir álitið rita Guðjón Hjörleifsson, Kristinn H. Gunnarsson, Jóhann Ársælsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján L. Möller, Hjálmar Árnason, Jón Gunnarsson, Magnús Þór Hafsteinsson, með fyrirvara, og Guðrún Inga Ingvarsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.

Síðan eru breytingartillögurnar. Þar er verið að samræma texta við þessi fern lög þannig að það eru nýir liðir í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, en þar er núna hámarksrefsing 4 milljónir.

Breytingartillögurnar eru eftirfarandi:

1. Við 1. gr. Síðari málsliður efnismálsgreinar orðist svo: Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.

2. Við 2. gr. Síðari málsliður efnismálsgreinar orðist svo: Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.

3. Við 3. gr. Við bætist nýr málsliður sem orðist svo: Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.

4. Við 4. gr. Við bætist nýr málsliður sem orðist svo: Við ítrekað brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 8.000.000 kr., sömuleiðis eftir eðli og umfangi brots.