131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[18:46]

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um sölu kristfjárjarðarinnar Utanverðuness í Sveitarfélaginu Skagafirði á þskj. 898, 504. mál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti. Jafnframt ræddi nefndin símleiðis við Ársæl Guðmundsson, sveitarstjóra í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Með frumvarpinu er lagt til að kristfjárjörðin Utanverðunes verði seld ábúanda. Andvirði jarðarinnar skal renna til Utanverðunesslegats sem er sjóður um eignina. Ráðstöfun eigna legatsins skal samræmast hinum forna tilgangi kristfjárjarða, en kristfjárjarðir voru hluti fátækraframfærslu fyrr á öldum. Jörðin Utanverðunes var gefin Rípurhreppi árið 1838 og skyldi gjöfinni varið til framfærslu munaðarlausra barna í hreppnum. Nefndin leggur til að sú breyting verði gerð á frumvarpinu að ráðstöfun eigna legatsins verði að hljóta samþykki félagsmálaráðuneytisins að fenginni umsögn sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.