131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18 til 24 ára.

73. mál
[19:15]

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18 til 24 ára. Í þeirri tillögu stendur:

„Alþingi ályktar að í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði við Nesjavallaveg verði sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18–24 ára þar sem samneyti þeirra við eldri fanga verði í algjöru lágmarki og aðeins ef brýna nauðsyn ber til.“

Þessi tillaga til þingsályktunar var lögð fram á síðasta þingi en komst ekki á dagskrá þingsins.

Í ljósi sérstöðu ungra fanga, á aldrinum 18–24 ára, telja flutningsmenn rétt að í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði við Nesjavallaveg verði sérstök deild fyrir þann aldurshóp.

Bygging hins nýja fangelsis veitir einstakt tækifæri til að gera ráð fyrir sérstakri deild fyrir unga fanga. Í umræðum um hið nýja fangelsi hefur hins vegar komið fram að ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkri sérdeild. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er bygging nýja fangelsisins nú í biðstöðu þar sem ekki er gert ráð fyrir fé til þess í fjárlagafrumvarpi. Það er því enn tækifæri til að gera ráð fyrir sérdeild fyrir unga fanga á aldrinum 18–24 ára. Ef ekki er hægt að gera ráð fyrir sérdeild fyrir unga fanga í nýja fangelsinu eða bygging þess frestast verulega telja flutningsmenn að breytingar á núverandi fangelsum séu nauðsynlegar í því skyni.

Þar sem meginröksemdin fyrir sérstöðu ungra fanga á aldrinum 18–24 ára eru hugsanleg slæm áhrif þeirra eldri á þá yngri þyrfti slík sérdeild að vera að mestu aðskilin frá öðrum deildum fangelsisins. Vitaskuld yrði unnt að samnýta ýmiss konar þjónustu fangelsins, svo sem aðstöðu fyrir heimsóknir, afþreyingu, vinnu, mötuneyti og fleira. Þess yrði hins vegar ævinlega að vera gætt að ungir fangar yrðu út af fyrir sig á þessum svæðum nema þar sem það er bundið miklum erfiðleikum t.d. við vinnu.

Það ber að taka fram að starfræksla sérdeildar fyrir unga fanga þarf ekki að koma í veg fyrir frekari deildarskiptingar innan fangelsisins t.d. fyrir fyrirmyndarfanga á öllum aldri. Sömuleiðis munu fangelsismálayfirvöld eftir sem áður hafa úrræði til að bregðast við hugsanlegum óæskilegum afleiðingum slíkrar deildarskiptingar, svo sem klíkumyndun eða einelti.

Fangar á aldursbilinu 18–24 ára hafa margs konar sérstöðu. Ungir fangar eru sérstaklega viðkvæmur hópur og ekki er æskilegt að þeir afpláni dóma í samneyti við eldri afbrotamenn að mati flutningsmanna. Líta ber svo á að við afplánun ungra fanga sé sérstaklega unnið að því að koma í veg fyrir frekari afbrot. Afplánun þeirra sé því liður í betrun, en þeirri betrun getur verið ókleift að ná fram með því að vista unga fanga í samneyti við eldri fanga, sem sumir hverjir eru síbrotamenn. Endurhæfing er líklegri til að skila betri árangri séu ungu fangarnir í eins jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi og hugsast getur miðað við aðstæður. Sérdeild fyrir unga afbrotamenn býður einnig upp á margs konar sértæk úrræði fyrir þennan aldurshóp, t.d. á sviði vímu- og geðmeðferðar.

Ungir fangar hafa einnig þá sérstöðu að oft hafa þeir einungis gerst sekir um eitt eða fá afbrot sem jafnvel eru í sumum tilfellum fremur smávægileg. Margoft hefur verið sýnt fram á að samneyti ungra fanga við eldri, og jafnvel forhertari fanga, geri þeim yngri ekkert gott og geti í sumum tilvikum haft afar slæm áhrif. Slíkt samneyti getur beinlínis haft hvetjandi áhrif á unga afbrotamenn til frekari þátttöku í afbrotum, en þó ber að sjálfsögðu að forðast að alhæfa í þessum efnum.

Einhver aldursmörk verða að vera og þykir flutningsmönnum hóflegt að miða við 24 ára aldur þegar afplánun hefst. Það má leiða líkur að því að einstaklingar undir þeim aldri hafi ekki náð fullum félagslegum þroska og að þeim sé því hætta búin af samneyti og áhrifum frá eldri afbrotamönnum.

Sakhæfisaldur er samkvæmt almennum hegningarlögum 15 ár. Nú þegar er til heimild fyrir því að bjóða ungum afbrotamönnum á aldrinum 15–18 ára að taka út refsingu sína á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Nái viðkomandi einstaklingur 18 ára aldri á meðan meðferð stendur getur þó meðferðartíminn eftir það ekki varað lengur en í 6 mánuði eftir að aldursmarkinu er náð.

Á árinu 2002 var enginn einstaklingur á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu á þessum grundvelli. Hins vegar var þremur einstaklingum á þessu aldursbili boðið að afplána dóma sína á meðferðarheimilum en þeir höfnuðu því allir.

Með samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu er ungum föngum gert kleift að afplána refsingu utan fangelsa og vistast í meðferð með öðrum börnum. Þetta fyrirkomulag verður að teljast afar jákvætt, enda bendir margt til þess að ungir afbrotamenn hafi ekki hag af því að vera vistaðir innan um eldri fanga.

Í c-lið 37. gr. samnings um réttindi barnsins, sem var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og fullgiltur af Íslands hálfu 28. október 1992, kemur fram að halda skuli hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki. Hér er átt við einstakling yngri en 18 ára. Við fullgildingu samningsins var enginn fyrirvari gerður af Íslands hálfu. Hins vegar var lögð fram yfirlýsing við c-lið 37. gr. þar sem kemur fram að í íslenskum lögum séu ekki ákvæði um að ungum föngum skuli halda aðskildum frá eldri föngum. En með hliðsjón af framangreindu samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu verður að telja að núverandi fyrirkomulag afplánunar ungra afbrotamanna á aldrinum 15–18 ára sé heppilegt.

Þrátt fyrir þessi úrræði fyrir afbrotamenn á aldrinum 15–18 ára er hins vegar rétt og nauðsynlegt að viðurkenna sérstöðu þeirra fanga sem eru eldri en 18 ára en eru ungir engu að síður. Slík sérstaða yrði viðurkennd með starfrækslu sérstakrar deildar innan fangelsis fyrir aldurshópinn 18–24 ára. Slík sérdeild fyrir unga fanga yrði að sjálfsögðu einnig opin þeim einstaklingum á aldursbilinu 15–18 ára sem kjósa að nýta ekki þá heimild að taka út sína refsingu á meðferðarheimilum á vegum Barnarverndarstofu.

Það er ljóst að sérdeild fyrir afbrotamenn á aldrinum 18–24 ára yrði ekki einungis ungum afbrotamönnum til hagsbóta heldur einnig samfélaginu í heild, þar sem líta má á þetta úrræði sem forvarnir.

Benda má á að að sjálfsögðu er aldur enginn algildur mælikvarði. Að sjálfsögðu er hægt að finna unga fanga og afbrotamenn sem eru forhertir og einnig má benda á að samneyti ungra fanga við hina eldri getur að sjálfsögðu stundum leitt gott af sér og haft jákvæð áhrif á viðkomandi ungan einstakling. Hér er lagt til að þessi aðskilnaður verði meginregla með hins vegar þeim sveigjanleika sem þörf krefur eftir viðkomandi einstaklingi. Þessi þingsályktunartillaga kemur ekki í veg fyrir að tekið sé upp fyrirkomulag fyrirmyndarfanga eða fyrirmyndargangs.

Það er ágætt að rifja það upp að ítrekunartíðni er hærri á meðal yngri fanga en þeirra eldri, eins og kemur fram í riti Helga Gunnlaugssonar o.fl. um ítrekunartíðni afbrota á Íslandi. Þar stendur á bls. 43, með leyfi forseta:

„Um 44% þeirra sem eru 29 ára eða yngri þegar dómur fellur koma við sögu lögreglu innan fimm ára frá því að þeir ljúka afplánun í fangelsi samanborið við 30% þeirra sem eru 30 ára eða eldri þegar dómur fellur.“

Á öðrum stað stendur, með leyfi forseta: „Ítrekunartíðni á Íslandi er hærri meðal karla og yngra fólks.“

Á enn öðrum stað í þessu merka riti stendur, með leyfi forseta: „Ítrekunartíðni hefur tilhneigingu til að vera hæst meðal yngri einstaklinga.“

Þessi rannsókn eða úttekt Helga Gunnlaugssonar o.fl. sýnir að ítrekunartíðni, þ.e. sú tíðni sem lýtur að því að menn komast aftur í kast við lögin, er hærri eftir því sem viðkomandi einstaklingur er yngri. Þetta er vísbending um að við erum kannski ekki að ná þeirri betrun sem við þurfum að ná fram varðandi ungu fangana.

Ég tel að bygging hins nýja fangelsis sem hefur verið ákveðin en eftir er að tryggja fjármagn til, sé ákveðið tækifæri í þessa átt og bjóði einmitt upp á að við tökum upp þennan aðskilnað sem ég held að til lengri tíma sé skynsamlegur.

Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason minntist á hugsanlegan aðskilnað ungra og eldri fanga í svari við fyrirspurn minni frá 24. nóvember sl., en í umræðu um þá fyrirspurn lét hv. þm. Drífa Hjartardóttir einnig falla þau orð falla, með leyfi forseta:

„Mér þótti líka mjög gott að heyra áherslu hæstv. dómsmálaráðherra á að villtir ungir afbrotamenn væru ekki með eldri föngum …“ — eins og hv. þingmaður orðaði það.

Hugsanlega er hér að opnast einhvers konar þverpólitískur skilningur á því að aðskilja unga og eldri fanga með einhverjum hætti.

Það er mikilvægt að þessi málaflokkur komist aðeins meira upp á yfirborðið og fari meira inn í umræðuna, það er löngu tímabært. Núna er til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd frumvarp um fullnustu refsinga þannig að þessi mál eru uppi á borðinu. Sömuleiðis liggur fyrir ákvörðun um að byggja nýtt fangelsi. Hér er því heilmikið tækifæri til að sníða helstu agnúa af því kerfi sem við höfum hvað varðar fanga.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til hv. allsherjarnefndar.