131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:33]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Mér barst vitneskja um þetta mál rétt um hádegisbil. En eins og kunnugt er vinnur ríkisstjórnin að sölu Símans í samræmi við heimild Alþingis þar um og framkvæmdanefnd um einkavæðingu heyrir undir ráðherranefnd um einkavæðingu. Framkvæmdanefndin vinnur nú að tillögugerð í þessu máli ásamt fjármála- og ráðgjafarfyrirtækinu Morgan Stanley. Þeirri tillögugerð er ekki lokið og hvorki ráðherranefnd um einkavæðingu né ríkisstjórn hefur verið gerð grein fyrir stöðu mála. Þegar þessari vinnu er lokið og ráðherranefndin hefur verið upplýst um málið og fjallað um það verður að sjálfsögðu skýrt frá málinu opinberlega. En á meðan á tillögugerðinni stendur og henni ekki lokið er ekki eðlilegt að gera grein fyrir málinu opinberlega eða í þingnefnd.

Þetta veit ég að hv. þingmaður hlýtur að skilja, þegar um svona mál er að ræða. Það verður að fá að ganga sinn eðlilega gang með þeim hætti sem til er stofnað. Ég vænti þess að hann og aðrir nefndarmenn hafi fullan skilning á því.