131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:39]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er furðulegt mál sem hér er verið að ræða um, að þingnefnd skuli haldið frá því að kalla menn til sín, í þessu tilfelli að kalla til sín einkavæðingarnefnd. Það sýnir náttúrlega bara hvers konar ráðslag er orðið hér á landi, ráðherraræði með tilskipunum sem jafnvel þingmenn stjórnarliðsins hafa ekkert um að segja nema að þegja.

Ég vildi gera athugasemd um sama mál, þ.e. það sem fram kom í máli forsætisráðherra á fimmtudaginn var þegar það var rætt að tilhlutan Jóns Bjarnasonar, og mótmæla því sem hæstv. forsætisráðherra sagði þá þar sem hann fór með rangfærslur í sinni ræðu. Hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Fyrir liggur heimild Alþingis frá árinu 2001 til að selja fyrirtækið í einu lagi og sú ákvörðun grundvallaðist á áliti og niðurstöðu fjölda sérfræðinga“ — ég vek athygli á þessu — „að hvorki væri skynsamlegt né þörf á að aðskilja grunnnetið frá öðrum þjónustuþáttum fyrirtækisins.“

Þessu vil ég mótmæla, virðulegi forseti. Ég tel það mjög alvarlegt mál þegar hæstv. forsætisráðherra fer með slíkar rangfærslur vegna þess að í niðurstöðum skýrslu frá Samkeppnisstofnun, sérfræðingum á samkeppnissviði til einkavæðingarnefndar sem dagsett er 7. apríl 2000, varar Samkeppnisstofnun alvarlega við því að fyrirtækið sé selt í heilu lagi eða grunnnetið selt með. Þess vegna eru það beinlínis rangfærslur, það er rangt hjá forsætisráðherra að halda því fram að sérfræðingar hafi allir mælt með að salan fari svona fram. Það er rangt og ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að leiðrétta það. Í áðurnefndri skýrslu vara sérfræðingar á samkeppnissviði mjög alvarlega við þessu og benda á tvær leiðir til þess að tryggja betri samkeppni á markaði eftir að Síminn hefur verið seldur, sem við getum ekki farið út í núna.