131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:50]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Segja má að það sé góðra gjalda vert að hæstv. fjármálaráðherra þenji sig svolítið yfir ágæti einkavæðingarinnar og öllum þeim milljörðum sem þar eru í húfi. Þetta er nú einu sinni mergurinn málsins, við erum að tala um margra milljarðatuga hagsmuni.

Fram hefur komið að einkavæðingarnefnd, sem hefur með höndum sölu á Símanum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sér ekki tilgang í því að ræða við Alþingi. Hæstv. forsætisráðherra, sem er æðsti forsvarsmaður framkvæmdarvaldsins, tekur undir þau sjónarmið og segir að hann sjái ekki tilgang í því að málið sé rætt í Alþingi fyrr en niðurstöður liggja fyrir.

Nú spyr ég: Er það ekki þingsins að leggja mat á þetta? Og er það ekki okkar sem erum í stjórnarandstöðu að meta hvernig við viljum sinna því lögbundna hlutverki sem á okkur hvílir, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald? Þetta er spurning um grundvallaratriði í störfum Alþingis og mér finnst ábyrgðarlaust að reyna að drepa málinu á dreif.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segist hafa orðið við óskum nokkurra þingmanna. Hann varð við óskum stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem er að reyna að rækja lögbundnar skyldur sínar. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni þegar hann beindi þeim tilmælum og óskum til okkar forsvarsmanna í þinginu að taka málin upp og skoða þau því við höfum ekki sett punktinn aftan við þessa umræðu.