131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[14:03]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er í annað skipti á örfáum dögum sem við ræðum um þennan lið sem er í þingsköpum, að þingmönnum gefist kostur á að ræða um störf þingsins. Það kemur í ljós sem kannski mátti vænta að reglurnar varðandi þennan lið eru þingmönnum, hæstv. forseta og hæstv. ráðherrum ekki nógu skýrar. Ég held að það sé einboðið að þingflokksformenn hljóti að taka þetta upp og ræða það með forseta þingsins vegna þess að hæstv. forseti hefur ítrekað sagt á fundum þingflokksformanna að þegar farið væri upp undir þessum lið um störf þingsins væri það alls ekkert gefið að málshefjandi og hæstv. ráðherrar sem hugsanlega væri verið að beina spurningum til kæmu upp aftur eða væru síðastir í pontu. Það hefur ítrekað komið fram að hæstv. forseti á hverjum tíma getur ákveðið hverjir ljúka umræðunni. Það er auðvitað ekki nógu gott að velkjast í vafa. Við þingflokksformenn þurfum að ræða þetta betur og taka þennan lið upp við forseta.

Ég vil svo aðeins segja, hæstv. forseti, að mér finnst eðlilegt að máli eins og því sem hér var tekið upp um störf þingsins, um það þegar nefndir framkvæmdarvaldsins neita að mæta og ræða við þingmenn í þingnefndum, sé beint til hæstv. forseta þingsins. Hann á að vernda rétt þingsins til að ná í upplýsingar. Fulltrúum í einkavæðingarnefnd eða öðrum nefndum sem boðaðar eru fyrir þingnefndir er þá í sjálfsvald sett þegar komið er til þingnefndarinnar að segja hvaða upplýsingar þeir geta látið í té og hverjar ekki. Það er hlutverk hæstv. forseta að standa með þingmönnum, þingnefndum, í því að við getum veitt framkvæmdarvaldinu það aðhald sem mögulegt er.