131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:43]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til nýrra samkeppnislaga sem hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir. Ég verð að segja að mér þótti óskaplega miður hve rýr ræða hæstv. ráðherra var og hve lítið hún reyndi að gera grein fyrir þeim breytingum sem ráðast á í og reyndi í engu að útskýra hvers vegna verið er að setja þessi nýju lög. Ef einhverjir ætla einhvern tíma í framtíðinni að reyna að nota þessa ræðu til skýringar á þeim reglum sem hugsanlega verða lögfestar þá verður hún til einskis nýt og það er afleitt í eins stóru máli og hér um ræðir að framsöguræður ráðherra séu af þeim toga sem við hlýddum hér á.

Almennt má rekja þessa lagabreytingu til mikillar umræðu í samfélaginu um vaxandi hringamyndun, ótta manna við að fáir sterkir aðilar væru að eignast hér flesta hluti eða eins og Morgunblaðið orðaði það stundum í baráttu sinni fyrir nýrri löggjöf, að það væru fáir sterkir aðilar að eignast Ísland. Það væri mikilvægt að setja ný lög sem tryggðu og kæmu í veg fyrir að slík þróun ætti sér stað. Um þetta varð mikil umræða, margar blaðagreinar birtust, m.a. eftir hæstv. þáverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, og hæstv. viðskiptaráðherra fjallaði um málið víða í samfélaginu.

Þá var ákveðið að setja á fót nefnd sem hefur gengið undir nafninu hringormanefndin og átti hún að skila tillögum til að ná þessu markmiði. Nefndin skilaði tillögum á síðasta ári og fannst mönnum ýmislegt um þær, ýmist að þær yrðu til bóta eða ekki. Því verður að segjast eins og er að þetta frumvarp hlýtur að vera mikið áfall fyrir þá sem hér töluðu lengi um nauðsyn þess að setja ný lög á samkeppnissviði með það að markmiði að koma í veg fyrir hringamyndun, óeðlileg eignatengsl í samfélaginu og markaðsráðandi stöðu. Lagt var upp með þau markmið og slík lög áttu að tryggja virka samkeppni í samfélaginu.

Þegar frumvarpið er skoðað, virðulegi forseti, verður fyrst á vegi manna að horfa á það hvernig eftirlitsstofnuninni sjálfri er skipt upp. Ég tel í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við þá hugmynd að skipta stofnuninni upp eins og fram kom hjá svokallaðri hringormanefnd og er stuðst við í þessu tilviki en það sem stingur í augu hvað það varðar er vitaskuld þessi sérstæða stjórn sem er sett yfir stofnunina, og að því er virðist henni til höfuðs. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, og einnig kemur fram í greinargerð, hefur stjórnin það hlutverk að tryggja meðalhóf í ákvörðunum og starfsemi stofnunarinnar. Þá hljóta menn að spyrja: Hvar hefur stofnunin farið út fyrir mörkin? Hvar var þetta óhóf sem kallaði á það að setja þriggja manna herráð, pólitískt skipað herráð, yfir þessa stjórn? Hvernig leyfist hæstv. ráðherra að segja í umræðunni að þetta sé til þess fallið að efla sjálfstæði stofnunarinnar? Í mörgum ræðum á hinu háa Alþingi og víðar í samfélaginu hefur hæstv. viðskiptaráðherra sagt: Ég skipti mér ekki af og beiti mér ekki gagnvart þessum eftirlitsstofnunum. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. ráðherra hafi gert það, enda hefur Samkeppnisstofnun oft og tíðum, og oftast, unnið mjög vel.

Hvar var þetta ósjálfstæði sem verið er að tryggja með því að skipa þriggja manna nefnd til að hafa eftirlit með því að það sé meðalhóf í ákvörðunum stofnunarinnar? Hvað er verið að fara? Í þessu ferli frá því að fyrstu drög voru kynnt er búið að taka út ákvæði þess efnis að þeir sem sitja í stjórninni skuli uppfylla ákveðin hæfisskilyrði sem þó eru í lögum um Fjármálaeftirlitið. Vel má vera að hér sé eitt af þessum gömlu trixum sem felast í að menn búa til vandamál til að geta leyst þau. Menn setja svo vitlausar hugmyndir fram að fólk sem hefur í raun og veru mikilla hagsmuna að gæta yrði sett í slíka stjórn. Ef lögin fara óbreytt í gegn gæti hæstv. ráðherra skipað forstjóra í tryggingafélögum, olíufélögum og matvörukeðjum sem stjórnarmenn í þessa stjórn til að gæta meðalhófs og tryggja að ekki verði farið út fyrir meðalhóf í starfsemi stofnunarinnar. Hvers konar dómadagsdella er þetta, virðulegi forseti? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé aðeins ein af þessum æfingum þar sem sett er fram hugmyndafræði sem allir vita að gengur ekki upp og svo eftir einhvern tíma þegar menn eru búnir að búa til vandamálið kemur lausnin og hún er að setja þetta inn aftur, þ.e. gera ákveðin hæfisskilyrði á sama hátt og er í Fjármálaeftirlitinu og þá séu menn búnir að leysa slík vandamál. Ég lít svo á að hér sé slíkur bjálfagangur á ferðinni að það sé á mörkum þess að hægt sé að taka málið alvarlega.

Það sem er jákvætt við þetta, og verður að taka fram strax, er að samkvæmt frumvarpinu á að bæta 60 millj. kr. í samkeppniseftirlit. Því ber að fagna. Því ber að fagna að loksins á að setja meira fé í stofnunina eftir að hún hefur verið svelt í öll þessi ár. Einkanlega hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið fremstur í flokki. Það er vissulega jákvætt að bæta eigi 60 millj. í stofnunina en þess ber þó að gæta að í þarfagreiningu hefur komið fram að a.m.k. 100 millj. þurfi, aðeins til að sinna þeim erindum sem stofnuninni berast. Það þarf að bæta við 100 millj. miðað við núverandi fjárlög til að geta sinnt þeim verkefnum sem stofnuninni berast þannig að þrátt fyrir þessar 60 millj. sem hér á að bæta við er ekki gert ráð fyrir því að stofnuninni takist að sinna þeim verkefnum sem henni eru ætluð. Engu að síður ber að fagna því að setja eigi meiri fjármuni í stofnunina.

Hið alvarlega í þessu máli er hins vegar að eftir alla þá umræðu sem fram hefur farið, alla þessa umræðu um hringamyndanir, alla umræðuna um að koma í veg fyrir að fáir sterkir aðilar kaupi upp Ísland, alla umræðuna sem var tilefni þess að menn eru að breyta þessum lögum, er niðurstaðan sú að hér liggur á borðinu frumvarp til laga sem, verði það óbreytt að lögum, er veikara en sú löggjöf sem nú er í gildi. Hringormanefnd vann skýrslu vegna þess að menn óttuðust þessa samþjöppun og hringamyndun en nú sjáum við fram á veikari löggjöf. Skýringin er í sjálfu sér mjög einföld. Fella á út heimild samkeppnisyfirvalda um að í tilvikum þar sem sú staða er uppi að eiginleg samkeppni getur ekki átt sér stað hefur stofnunin ekki lengur þau tæki á höndum sem hún hefur við núverandi fyrirkomulag. Það er athyglisvert vegna þess að í umræðunni hafa stjórnarliðar oft og tíðum talað mikið og farið mikinn um til að mynda þá samþjöppun sem átt hefur sér stað á matvörumarkaði.

Við skulum bara taka það dæmi. Samkvæmt gildandi lögum gæti Samkeppnisstofnun gripið inn í og skipt upp eða krafist skipulagsbreytinga á Baugi sem hefur oftast verið nefndur til sögunnar. Samkvæmt núgildandi lögum væri það hægt. Samkvæmt núgildandi lögum væri hægt að krefjast uppskiptingar á Baugi. Sennilega væri það sama hægt með Símann verði hann seldur með a.m.k. 70% markaðshlutdeild og eins getur þetta átt við um lyfjafyrirtæki. Eftir setningu þessara laga er það ekki hægt nema þau verði staðin að brotum. Við skulum gefa okkur lítið dæmi.

Það að ráða 70% af matvörumarkaðnum er alveg gríðarlega öflug staða og gefur mönnum óheyrilegt vald. Þeir sem vilja komast inn í búðir, inn á markað þar sem einstakur aðili hefur slíka yfirburðastöðu, þurfa að gefa gríðarlegan afslátt á vörum sínum til að komst inn í þessar verslanir. Það er afsláttur sem hann verður síðan að sækja annars staðar og hver maður sér í hendi sér að aldrei getur þróast eðlileg, skynsamleg og virk samkeppni við slíkar aðstæður. Það getur einfaldlega aldrei gerst vegna þess að það þarf að sækja þennan afslátt eða tap á þessum viðskiptum til einhverra annarra. Hér er samt ekki um að ræða nein brot. Hér er um að ræða ákveðna kröfu til viðskiptavina birgja fyrir því að þeir komist að. Svona vinnubrögð gera það þó að verkum að samkeppni getur aldrei þróast. Samkeppni fær ekki þróast á eðlilegan hátt við þessar aðstæður. Það tæki er tekið út. (Gripið fram í: Hefur því verið beitt?) Því hefur ekki verið beitt en hér er verið að taka það út. Því verður a.m.k. ekki beitt ef það verður tekið út.

Mig langar, virðulegi forseti, til að vekja sérstaka athygli á einu vegna þess að það er eins og hér hafi verið samið út atriði eftir atriði án samhengis við önnur atriði. Ég held að full ástæða sé til að líta á 8. gr. d í þessu frumvarpi þar sem fjallað er um hlutverk samkeppniseftirlits. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja; skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni; stofnunin skal birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða …“

Með því að taka út það ákvæði sem ég vísaði til hefur stofnunin engin tæki til að grípa til aðgerða, engin einustu tæki. Þannig er þá búið um hnútana að það frumvarp sem við hér fjöllum um, þær lagareglur, þau tæki sem á að setja og lögfesta í þessu samfélagi sem eiga að vera umgjörð og leikreglur um íslenskt viðskiptalíf, er veikara en það sem er við lýði. Það vantaði alveg skýringar í framsögu hæstv. ráðherra á því hvers vegna hæstv. ráðherra velur að fara þessa leið. Hvers vegna velur hæstv. ráðherra að veikja lögin frá því sem nú er? Það var lagt af stað með allt aðra hugmynd og ég verð að segja að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir, þ.e. verði hún óbreytt að lögum, hlýtur að verða mikið áfall fyrir þá sem börðust hatrammri baráttu fyrir því að hér yrðu sett lög sem gætu tekið á hringamyndun, samþjöppun og eignatengslum í íslensku samfélagi.

Ég vildi nefna eitt vegna frammíkalls hv. þm. Péturs Blöndals áðan. Ekki er hægt að líta fram hjá því ákvæði sem ég vitnaði til að horft væri til í ákvörðun 21/1998, um breiðband Símans. Það er ekki rétt að aldrei hafi verið horft til þessa ákvæðis og í þeim úrskurði kemur einmitt fram að samkeppnisyfirvöld hafa talið sér heimilt að skipta upp fyrirtækjum hingað til. Það sem nú er verið að setja í lögin sem menn jafnvel kunna að segja að sé eitthvað nýtt er aðeins hluti sem kemur inn vegna EES hvort sem er þannig að það hefur enga breytingu í för með sér, enga. Það er engin viðbót við þau tæki sem samkeppnisyfirvöld hafa.

Það sem hér verður einnig að vekja athygli á samkvæmt því frumvarpi sem verið er að ræða er ætlunin að skipa nýjan forstjóra yfir þessari nýju stofnun, og það gerir þessi stjórn. Þessari stjórn sem ég nefndi áðan er ætlað að gera það og hún gæti verið þess vegna skipuð forstjórum tryggingafélaga, olíufélaga og ráðandi keðja á matvörumarkaði vegna þess, virðulegi forseti, (Viðskrh.: Þetta er fyndið.) að hæstv. ráðherra tók út úr drögum að frumvarpinu ákvæði þess efnis að gera ákveðin hæfisskilyrði. Hæstv. ráðherra kallar fram í að þetta sé óskaplega fyndið. Kannski er það trixið að búa fyrst til vandamál og leysa það svo og það þykir hæstv. ráðherra óskaplega fyndið. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni sem talaði hér áðan, það er algerlega ótækt að hæstv. ráðherra flytji þá framsöguræðu sem hún flutti um þetta tiltekna málefni, enda gerir það að verkum að hún verður algerlega ónothæf þegar kemur til þess að reyna að skýra þetta ákvæði.

Hæstv. ráðherra verður einnig að skýra það af hverju hún hefur ákveðið að fara þá leið að fylgja ekki tillögum hinnar svokölluðu hringormanefndar, sem ég hef leyft mér að kalla svo, um að heimilt verði að gera húsleit á heimilum og landsvæðum vegna þessara brota, þ.e. af hverju þessu er ekki fylgt eftir. Þar var um að ræða hreinar og klárar tillögur þessarar nefndar. Reyndar átti hið sama við um að þessi svokallaða 17. gr. eins og hún nú er í samkeppnislögum yrði áfram inni. Það hélst nú reyndar í hendur. Hæstv. ráðherra verður að skýra þetta.

Þá er einnig búið að taka út frá fyrstu drögum þessa frumvarps ákvæði sem ég tel vera mjög mikilvægt, þess efnis að samkeppnisyfirvöld geti einnig áfrýjað málum til dómstóla. Það er mjög mikilvægt þegar yfirvöld álykta sem svo að áfrýjunarnefnd hafi komist að niðurstöðu sem samræmist ekki hagsmunum almennings að geta látið á það reyna fyrir dómstólum, þ.e. ekki bara þeir sem eru taldir hafa gerst brotlegir við samkeppnislög, ekki bara þeir heldur einnig þeir sem hafa það hlutverk í íslensku samfélagi að gæta hagsmuna almennings, að gæta hagsmuna neytenda, að þeir geti farið með þessi mál fyrir dómstóla. Ég tel það, virðulegi forseti, afar mikilvægt og þar sem ég veit að þetta mál kemur til efnahags- og viðskiptanefndar þá mun ég tala fyrir því þar í nefndinni.

Svona rétt í lokin af því ég sé að tími minn er að verða útrunninn vil ég segja að samkeppnislög eru þannig í eðli sínu að þau hefta ákveðið athafnafrelsi í því skyni að reyna að tryggja samkeppni. Þetta verður því alltaf barátta á milli þess að hafa óheft athafnafrelsi og þess að reyna að tryggja samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur og almenning í landinu. Þess vegna er mjög athyglisvert í þessu samhengi að þeir einustu sem fagna þessu frumvarpi séu Samtök atvinnulífsins, þ.e. fulltrúar þeirra sem Samkeppniseftirlitinu er ætlað að hafa eftirlit með. Það, virðulegi forseti, segir nokkuð (Forseti hringir.) um efni þess frumvarps sem við hér ræðum og munum ræða áfram í dag.