131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:10]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var dálítið skrítin ræða. Hæstv. ráðherra sagði í sínu máli og það kemur einnig fram í greinargerðinni að þessi stjórn er sett á laggirnar til þess að tryggja að stofnunin gæti ákveðins meðalhófs í sinni starfsemi. Með öðrum orðum er stjórnin sett stofnuninni til höfuðs til þess að tryggja að hún gæti meðalhófs í starfsemi sinni.

Þá vil ég einnig minna á af því að hæstv. ráðherra hefur verið óspar á yfirlýsingar þess efnis að hæstv. ráðherra skipti sér ekki af eftirlitsstofnunum (Viðskrh.: Sem er rétt.) og hefur ekki gert þannig ég skil ekki, virðulegi forseti, hvernig stofnunin getur orðið sjálfstæðari við það að hæstv. ráðherra skipi þriggja manna herráð, stjórn, til þess að gæta þess að stofnunin gæti meðalhófs í störfum sínum. (Viðskrh.: Gæti ekki komið annar ráðherra? Það er mögulegt.)