131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hæstv. ráðherra smám saman vera að viðurkenna að verið sé að veikja þessi samkeppnislög. Það er búið að taka út þetta ákvæði um húsleitina sem er eins og ég nefndi áðan t.d. mjög mikilvægt í norskum lögum. Þetta frumvarp tekur nokkurt mið af norskum lögum sem hefur iðulega verið beitt og oft orðið til þess að samráðsgögn hafa fundist hjá forstjórum norskra fyrirtækja. Ég tel mjög brýnt að slíkt ákvæði sé hér til staðar. Hérna er það tekið út og gert þá í ... Var það ekki, virðulegi forseti, gert í meðförum þingflokks sjálfstæðismanna? Ég spyr af því að hæstv. ráðherra réttlætir þetta með því að nú sé nefnd starfandi á vegum forsætisráðherra, held ég að hún hafi nefnt, sem er að skoða samskipti lögreglu og samkeppnisyfirvalda, þá væntanlega til þess að hægt sé að koma með skýrari verkaskiptingu milli þessara aðila. Menn þekkja það frá því í olíusamráðinu að verkaskipting milli þessara stofnana eru mjög óljós.

Ég spyr: Hvenær á þetta að liggja fyrir? Hvenær mun niðurstaða liggja fyrir? Verður það t.d. áður en efnahags- og viðskiptanefnd afgreiðir málið frá sér? Það er mikilvægt að við fáum inn í þessa umræðu hvernig eigi að haga þessum málum.

Ég vil svo sannarlega ekki gefa upp alla von um að hægt verði að ná einhverju samkomulagi um það í efnahags- og viðskiptanefnd að koma aftur inn með þetta húsleitarákvæði.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi er náttúrlega alveg ljóst að í núverandi samkeppnislögum er ákvæði sem bannar þeim sem hafa hagsmuna að gæta af atvinnurekstri að sitja í samkeppnisráði, þ.e. formanni og varaformanni. Það er verið að taka þetta ákvæði út. Það eru ekki nokkur rök, virðulegi forseti, sem kalla á það brottfall. Ég mun reyna það sem ég get í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar að ná aftur inn þessu ákvæði sem er í núgildandi samkeppnislögum.