131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:57]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er eitthvað verið að leggja mér orð í munn. Ég sagði það aldrei að ég teldi að Samkeppnisstofnun þyrfti ekki á meiri peningum að halda. Það er reyndar þannig að mér dettur ekki í hug nein ríkisstofnun eða neinn ríkisforstjóri sem telur sig ekki þurfa á meiri fjármunum að halda til að stunda starfsemi sína. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti bent mér á stofnun sem ekki teldi sig þurfa meiri peninga.

Ég var ekkert að ræða þetta, hv. þingmaður. Ég nefndi það að Samkeppnisstofnun hefur ekki verið haldið í fjársvelti eins og hv. þingmaður telur. Hv. þingmaður hefur í rauninni verið eins og rispuð plata, ekki bara í þessari umræðu heldur í nokkur missiri. Hún talar endalaust um að Samkeppnisstofnun hafi verið haldið í fjársvelti. Ég nefni það að í þessu meinta fjársvelti á árunum 1998 til ársins 2004 hafa fjárframlög til Samkeppnisstofnunar aukist um 87% (JóhS: En verð…?) á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29%. (JóhS: En verð…?) Þetta er nú allt fjársveltið. Ég vildi bara gera (Forseti hringir.) athugasemd við það vegna málflutnings hv. þingmanns.