131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að vera ekki að gera mér upp skoðanir og kokka upp ástæður þess að ég tel frumvarpið vera til bóta umfram þann rétt sem nú er í gildi.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vitnar til að ég hef tjáð mig mjög opinskátt um samkeppnislög og reyndar varðandi allt regluverk og reglusetningu hvað atvinnulífið varðar. Ég vil að reglur séu sem fæstar og hömlurnar séu sem minnstar á atvinnulífið — öfugt við hv. þingmann sem hefur lýst því yfir að hann sakni þess að Samkeppniseftirlitinu verði ekki veitt heimild til vettvangsrannsókna á heimili fólks og hefur lýst sig samþykkan því að rétt sé að brjóta upp fyrirtæki án þess að nokkur lög hafi verið brotin. Ég er bara ekki sammála slíkri framtíðarsýn og regluverki.