131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:20]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gaf í skyn að það væri ekki allt í lagi með samkeppnisyfirvöld í dag. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan, sökum þeirra ummæla sem hafa fallið hér í dag að við séum að fara út í þessar breytingar vegna þess að eitthvað stórkostlegt hafi verið að hjá núverandi samkeppnisyfirvöldum, og tiltók til að mynda olíumálin þar sem mér þóttu samkeppnisyfirvöld standa sig mjög vel í því að klára það mál.

Hv. þingmaður talar um að málaflokkurinn hafi drabbast niður og þetta sé ekki rétt forgangsröðun. Við erum einmitt að forgangsraða núna með þessu frumvarpi. Til að mynda get ég nefnt að í síðasta fjárlagafrumvarpi var lagt til að framlög til Samkeppnisstofnunar yrðu aukin um 20 millj. kr. og ef þetta frumvarp verður að lögum óbreytt er áætlað að kostnaður aukist um 60 millj. kr. sem koma þá aukalega og sérfræðingum verður fjölgað um sjö, úr tíu í sautján. Ég tel að þetta séu aldeilis góð tíðindi fyrir samkeppnisyfirvöld í landinu og ekki síst fyrir neytendur, og vona auðvitað að það verði til þess að hægt sé að hraða málum þar í gegn.

Varðandi stjórnsýsluna sjálfa, að verið sé að skipa nefnd til að horfa yfir öxlina á yfirvöldum, þá vil ég benda á að við erum að fara svipaða leið og er hjá Fjármálaeftirlitinu og enginn hefur sagt annað en að það kerfi sé mjög skilvirkt.