131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:28]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég tala ekki gegn betri vitund þegar ég tel að við séum að efla samkeppnisyfirvöld. Ég er þess fullviss, sérstaklega í ljósi þess að nú loks eru samkeppnisyfirvöld að fá aukið fjármagn. Þau geta ráðið sjö sérfræðinga í viðbót, það fjölgar úr tíu í sautján, það er engin smáræðis fjölgun, og vonandi munu mál geta gengið greiðar fyrir sig hjá þeim.

Varðandi það að draga úr sjálfstæði þá er ég ekki sammála því. Ég held að það sé mikill kostur að forstjóri sé til að mynda ekki ráðinn beint af ráðherra. Síðan var talað um meiri háttar ákvarðanir sem þurfi að bera undir stjórn. Auðvitað á eftir að móta allar þær reglur hvernig meiri háttar ákvarðanir verða skilgreindar. Það koma engin skilaboð fyrir fram um það frá Alþingi. Ég vil bara ítreka að ég tel þetta vera gott mál og við eigum að sjálfsögðu eftir að vinna það áfram í nefndinni.